MÍ 11-14 í frjálsum Skagfirðingar komu heim með 12 verðlaun
Meistaramót Íslands í frjálsíþróttum innanhúss, fyrir 11-14 ára, fór fram í Laugardalshöllinni í Reykjavík helgina 26. og 27. febrúar. Skagfirðingarnir unnu til 12 verðlauna á mótinu, 2 gull-, 6 silfur- og 4 bronsverðlauna. ÍR-ingar sigruðu í samanlagðri stigakeppni mótsins með 500,5 stig, í 2. sæti varð FH með 470 stig, 3. HSK 352, 4. Breiðablik 341, 5. UMSE 172 og í 6. sæti varð UMSS með 170 stig, en alls kepptu lið 18 félaga og sambanda á mótinu
ÍR og FH sigruðu, hvort lið, í stigakeppni þriggja flokka af átta sem keppt var í, en UMSS og HSK sigruðu í einum flokki hvort lið. Það voru 13 ára stúlkurnar úr Skagafirði, sem sigruðu í stigakeppni síns flokks með 79 stig, Breiðablik varð í 2. sæti með 75 stig og UFA í 3. sæti með 53 stig.
Keppendur voru 337, sem er töluverð fjölgun frá fyrri árum, og sýnir mikla grósku í frjálsíþróttunum víða um land, einkum á Norðurlandi og á svæði Skarphéðins á Suðurlandi. Skagfirðingar í hópnum voru 25 talsins, ungt og efnilegt íþróttafólk, sem stóð sig mjög vel og á sannanlega möguleika á bjartri framtíð í íþróttunum, ef þau halda áfram að æfa af sama áhuga og dugnaði.
Skagfirðingarnir sem unnu til verðlauna voru:
Sæþór Hinriksson (11) sigraði í 2 greinum langstökki og hástökki, og varð í 2. sæti í 60m hlaupi.
Fríða Ísabel Friðriksdóttir (13) varð í 2. sæti í 60m grindahlaupi og 800m hlaupi, og í 3. sæti í 60m og hástökki.
Gunnhildur Dís Gunnarsdóttir (13) varð í 2. sæti í langstökki.
Sylvía Sif Halldórsdóttir (12) varð í 2. sæti í 800m hlaupi.
Stúlknasveit UMSS (13) varð í 2. sæti í 4x200m boðhlaupi.
Í sveitinni voru Valdís Valbjörnsdóttir, Hrafnhildur Gunnarsdóttir, Gunnhildur Dís Gunnarsdóttir, Fríða Ísabel Friðriksdóttir..
Stúlknasveit UMSS (12) varð í 3. sæti í 4x200m boðhlaupi.
Í sveitinni voru Sigríður Vaka Víkingsdóttir, Hafdís Lind Sigurjónsdóttir, Vala Rún Stefánsdóttir, Sylvía Sif Halldórsdóttir.
Piltasveit UMSS (13) varð í 3. sæti í 4x200m boðhlaupi.
Í sveitinni voru Pálmi Þórsson, Ragnar Yngvi Marinósson, Bjarni Páll Ingvarsson, Sigfinnur Andri Marinósson.
Til hamingju krakkar !