Minnisvarði um Jón S. Bergmann afhjúpaður

Minnisvarði um skáldið Jón S. Bergmann var afhjúpaður sl. laugardaginn í tilefni af 140 ára afmælisdegi hans. Minnisvarðinn stendur á fæðingarstað hans að Króksstöðum í Miðfirði. Minnisvarðann gerði Erlingur Jónsson, myndhöggvari í Osló, að tilhlutan tveggja dótturbarna Jóns.

Í frétt á vef Norðanáttar.is kemur fram að við afhjúpun minnisvarðans ávarpaði Óttar Yngvason gesti og tvö barnabarnabörn Jóns lásu ljóð eftir hann. Á minnisvarðanum er að finna mynd af Jóni og ljóð eftir hann.

Að athöfninni lokinni lá leiðin út á Hvammstanga þar sem dagskráin hélt áfram í félagsheimilinu. Þar ávarpaði Óttar Yngvason gesti á ný og Valdimar Tómasson skáld fjallaði um ævi og verk Jóns. Því næst voru flutt lög við ljóð eftir Jón S. Bergmann.

Að tónlistardagskrá lokinni var vígslukaffi sem Kvenfélagið Björk sá um og steig kvæðamaðurinn Pétur Húni Björnsson á svið og kvað nokkrar vísur eftir Jón S. Bergmann. Þá þakkaði Guðný Hrund Karlsdóttir, sveitarstjóri Húnaþings vestra, fyrir þá menningu sem dagskráin innihélt.

Myndasyrpu frá deginum má skoða á Norðanátt.is.

Fleiri fréttir