Niðurskurði vegna riðu á Vatnshóli lokið
Síðari hluti niðurskurðar á Vatnshóli fór fram í gær en eins og sagt hefur verið frá greindist riða á bænum fyrr á árinu en þar voru um 925 fjár. Á heimasíðu Matvælastofnunar segir að niðurskurðurinn og flutningur hafi gengið vel og samkvæmt áætlun.
Eins og fram kom í fréttum sl. föstudag varð óhapp við flutning hræja úr fyrri niðurskurði til brennslu þegar vökvi hafði slest upp úr gámunum á þjóðvegi nr. 1 í Borgarfirði. Í seinni flutningnum voru úrbætur gerðar til að koma í veg fyrir að slíkt óhapp endurtæki sig og segir á heimasíðu MAST að meðal annars hafi flutningurinn farið fram strax að lokinni aflífun á fénu og minna magn sett í hvern gám.
„Smithætta af völdum þess vökva sem barst á þjóðveginn í síðustu viku er lítil að mati Matvælastofnunar, m.a. vegna árstíma og að ekkert fé er á beit auk þess sem þjóðvegur nr. 1 er afgirtur og gott eftirlit er með lausagöngu búfjár á svæðinu. Því er ekki ástæða til að grípa til sérstakra ráðstafana vegna atviksins. Umhverfisáhrif á borð við sólarljós, hita og kulda á víxl óvirkja smitefnið. Fólki stafar ekki hætta af riðusmitefni,“ segir í frétt stofnunarinnar.
Þar kemur einnig fram að Matvælastofnun hafi engan annan kost en að láta flytja allan sóttmengaðan úrgang um langan veg að óbreyttu. Brennslustöðin Kalka, sem staðsett er á Suðurnesjum, er eina brennslustöðin á landinu sem hefur starfsleyfi til að taka á móti og brenna riðuhræjum.
Tengdar fréttir
Óhapp við flutning hræja til brennslu vegna riðu
Nýtt riðutilfelli í Húnaþingi