Ný netverslun smáframleiðenda í loftið

Þórhildur M. Jónsdóttir, verkefnastjóri Vörusmiðju BioPol. Mynd: PF.
Þórhildur M. Jónsdóttir, verkefnastjóri Vörusmiðju BioPol. Mynd: PF.

Vörusmiðjan BioPol á Skagaströnd hóf starfsemi haustið 2017 en þar er vottað vinnslurými fyrir smáframleiðendur og einstaklinga sem geta leigt rýmið með tólum og tækjum og framleitt það sem þeir óska sér þó innan leyfilegra marka. Þórhildur M. Jónsdóttir er verkefnastjóri smiðjunnar og segir mikla grósku í starfseminni. Nýlega opnaði netverslun á heimasíðu Vörusmiðjunnar þar sem smáframleiðendur bjóða upp á sínar vörur.

Þórhildur segist aðstoða framleiðendur eftir bestu getu við það sem þeir eru að takast á við hverju sinni en auk þess að leigja aðstöðuna til smáframleiðenda hafa einstaklingar notið góðs af sem og Farskólinn sem hefur boðið upp á ýmis námskeið.

Til að auka enn á þjónustuna var opnuð vefverslun á heimasíðu Vörusmiðjunnar, vorusmidja.is, en þar getur fólk pantað sér vörur smáframleiðenda, bæði ætar og óætar. Til áréttingar fellur leðurfeiti og kælitaska í óæta flokkinn.

Í vefverslun Vörusmiðjunnar getur fólk pantað sér bæði ætar og óætar vörur smáframleiðenda„Uppsetningin á netversluninni er persónuleg og viðskiptavinurinn getur valið beint frá ákveðnum framleiðendum eða eftir vöruflokkum. Við fengum til liðs við okkur ungan forritara, hann Júlíus Guðna, sem á og rekur fyrirtækið Extis ehf. Hann setti upp heimasíðuna fyrir okkur og byggði upp netverslunina frá grunni, sem er svo skemmtilegt því þá er hægt að gera svo skemmtilegar útfærslur.“

Þórhildur segir að þetta sé enn ein leiðin til að auka aðgengi að vörum smáframleiðenda á svæðinu. „Við vildum tengja þetta allt saman. Þannig er hægt að velja um þrjár afhendingarleiðir; að það sé hægt að sækja beint til okkar í Vörusmiðju BioPol, fá sent með Flytjanda/Eimskip eða fá afhent í bíl smáframleiðenda á þeim stað sem hentar viðkomandi. Með þessu erum við að reyna að koma til móts við viðskiptavininn á sem þægilegastan hátt fyrir hann.“

Smáframleiðendur hafa nýtt Vörusmiðjuna vel og fer eftirspurn vaxandi. Mynd af FB-síðu Vörusmiðjunnar.Þórhildur segir fyrstu vikuna hafa farið fram úr björtustu vonum en eins og vænta mátti urðu smá hnökrar sem búið er að laga. „Það sem okkur þótti áhugavert er að fólk velur allar þessar afhendingarleiðir í bland, sem er skemmtilegt. Það er líka alltaf að bætast við vöruúrvalið í netversluninni eftir því hvað framleiðendur framleiða sem gerir þetta svo skemmtilegt og lifandi.“

Hvað er á döfinni?
„Það er svo margt að ég veit varla hvar ég á að byrja. Það er svo mikið að gerast í þessum efnum og mikil gróska í matvælaframleiðslu. Við hjá Vörusmiðju BioPol munum halda áfram að vinna að því að gera vörur smáframleiðenda aðgengilegar og sýnilegar. Við erum t.d búin að setja saman frábæra jólapakka saman frá smáframleiðendum af svæðinu, sem fyrirtæki geta pantað, einnig einstaklingar sem vilja gefa sérstaka gjöf. Við munum halda áfram að vinna með Farskólanum að nýjum námskeiðum sem fólk hvaðan af að landinu getur sótt. Við erum búin að halda tíu námskeið nú þegar og eigum eftir sex á þessu hausti.“

Fjölmörg námskeið hafa verið haldin í Vörusmiðju BioPol en hér er verið að búa til hrápylsur. Mynd: PF.

Þórhildur segir að Matarauður Íslands hafi styrkt Vörusmiðjuna til að gera gæðahandbók sem hægt væri að nálgast á netinu og fylla út. Það verkefni er ætlað til að styðja við og auðvelda smáframleiðendum umsóknaferilinn. „Við erum einnig að setja upp markaðstorg milli  framleiðenda á svæðinu og stærri neitenda s.s fyrirtæki og stofnanir. Þetta eru allt verkefni til að styðja við smáframleiðendur. Þannig að það eru næg verkefni, öll ólík en öll með sama markmiðið að styðja við og efla færni smáframleiðenda.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir