Óásættanleg samgönguáætlun

Jón Óskar Pétursson, framkvæmdastjóri SSNV, hefur sent frá sér grein þar sem farið er yfir rýra útkomu Norðurlands vestra í samgönguáætlun 2009 - 2012. Ekki sé gert ráð fyrir stórum fjárhæðum í vegaúrbætur á svæðinu næstu þrjú árin o í raun sé svæðið útundan sé það borið við önnur svæði.

Hér fyrir neðan má lesa grein Jóns í heild sinni.

Lögð hefur verið fram á alþingi tillaga til þingsályktunar um fjögurra ára samgönguáætlun 2009-2012. Áætlunin inniber áætlun til fjögurra ára í flugmálum, siglingamálum og vegamálum. Þá inniber áætlunin fimm meginmarkmið, en þau eru; greiðari samgöngur, hagkvæmni í uppbyggingu ,umhverfisleg sjálfbærni, öryggi og jákvæð byggðaþróun.

Hér verður sjónum beint að áætlun í vegamálum og hlutskipti Norðurlands vestra innan þess málaflokks.

Þegar skoðuð eru framlög til vegamála  í Skagafirði og Húnavatnssýslum kemur í ljós að fjögur verkefni fá fjárveitingu á árinu 2010 og eru það einu framlögin til vegamála á Norðurlandi vestra á eftirlifandi gildistíma áætlunarinnar. Þær fjárveitingar miða allar við að ljúka  framkvæmdum sem í gangi voru á árinu 2009 en upphæðirnar nema einmitt mismuni af kostnaðaráætlun og fjárveitinga til viðkomandi verkefna á árinu 2009. Um er að ræða eftirfarandi verkefni.

  • Hvammstangavegur – Um Hvammstanga           1 milljón.
  • Vatnsdalsvegur – Hvammur- Hringvegur              4 milljónir.
  • Þverárfjallsvegur- Skagavegur – Sauðárkrókur    3 milljónir.
  • Skagavegur – Örlygsstaðir- Króksel                        4 milljónir. 

Samkvæmt þessu nemur heildarframlag til verkefna á Norðurlandi vestra  12 milljónum króna.  Ljóst er að þessi upphæð fullnægir á engan hátt lágmarksþörf fyrir framkvæmdir í vegamálum á svæðinu.

Sveitarstjórnarmenn á Norðurlandi vestra hafa mörg undanfarin ár lagt áherslu  á nauðsyn þess að bæta viðhald vegakerfisins  í  Húnavatnssýslum og Skagafriði m.a  til þess að skapa  helstæð atvinnu, - búsetu,- og þjónustusvæði , Á 17. ársþingi SSNV sem haldið í Skagafirði í ágústmánuði 2009 var m.a ályktað eftirfarandi um samgöngumál á Norðurlandi vestra;

  • Afar brýnt er að stórbæta viðhald héraðsvega í Húnavatnssýslum og Skagafirði og þeir lagðir bundnu slitlagi.
  • Viðhald á þjóðvegi 1 um Húnavatnssýslur er stórlega ábótavant og þolir vegurinn ekki  þá miklu umferð sem þar fer um dag hvern. Því er mikilvægt að ráðast strax í viðhald vegarins.

Þá hefur  ítrekað bent á og ályktað um mikilvægt þess að ljúka gerð Þverárfjallsvegar í báða enda þar sem umferð um vegin hefur stóraukist og eru þeir kaflar sem um ræðir á engan hátt undir þá miklu umferð búnir og eru beinlínis hættulegir.  Ábendingar sveitarstjórnarmanna á Norðurlandi vestra varðandi aðgerðir í vegamálum hafa verið hófstilltar og einkum miðað að auknu umferðaröryggi og nauðsyn þess að verja þær fjárfestingar sem lagt hefur verið í á undanförnum áratugum skemmdum. Þær ábendingar eru í fullu samræmi við a.m.k þrjú  af fimm meginmarkmiðum áætlunarinnar  þ.e um greiðari samgöngur, öryggi og jákvæða byggðaþróun. Þrátt fyrir það virðast þær ábendingar ekki hafa náð eyrum samgönguyfirvalda, hvað sem svo veldur.

Vegna erfiðrar stöðu ríkissjóðs er vandséð að fjárveitingar til samgöngumála á næstu árum geti uppfyllt að öllu leiti  þá  brýnu þörf sem er fyrir úrbótum í samgöngumálum hér á landi og ber þingsályktunartillagan það verulega með sér. Á engan hátt skal gert lítið úr þeim vanda sem samgönguyfirvöld standa frammi fyrir við ákvörðun verkefna en hins vegar verður að fara fram á að jafnræðis og skynsemi sé gætt í útdeilingu fjármagns. Við þannig aðstæður er mikilvægara en nokkru sinni að vanda vel til forgangsröðunar verkefna og þá sérstaklega á sviði vegamála. Það er  því fullkomlega óásættanlegt að heilt landsvæði skuli skilið útundan þegar kemur að framlögum til vegamála.

Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra hafa þegar óskað eftir fundi með Samgönguráðherra til þess að ræða stöðu  Norðurlands  vestra innan samgönguáætlunar 2009-2012. Þá mun á næstu dögum verða fundað með samgöngunefnd Alþingis.

Nánar má fræðast um samgönguáætlun á vef Alþingis á slóðinni. http://www.althingi.is/altext/138/s/0973.html

Höfundur

Fleiri fréttir