ON opnar 31. hlöðuna hjá N1 á Sauðárkróki

Orka náttúrunnar og N1 tóku í gær formlega í notkun nýja hlöðu með hraðhleðslu fyrir rafbíla við Ábæ, þjónustustöð N1 á Sauðárkróki. Hlaðan er sett upp með styrk frá Orkusjóði og í samstarfi við Vistorku, samstarfsvettvang norðlenskra sveitarfélaga og Norðurorku að ýmsum umhverfismálum. Þetta er 31. Hlaðan sem ON hefur sett upp víðsvegar um landið og sú áttunda sem er á þjónustustöð N1.
Það var Þórhallur Rúnar Rúnarsson, stöðvarstjóri N1 á Króknum, sem tók hlöðuna formlega í notkun. Páll Örn Líndal, rekstrarstjóri þjónustustöðva N1, og Hafrún Huld Þorvaldsdóttir, sölustjóri hjá ON, tóku líka þátt í viðburðinum.
Gott samstarf
Í tilkynningu frá Orku náttúrunnar segir að N1 reki eitt stærsta þjónustunetið við vegi landsins og þess vegna sé mikilvægt að þar sé boðið upp á þá orku sem ferðalangar þurfi, á bílinn eða sjálfa sig. Fyrir rúmu ári gerðu ON og N1 rammasamkomulag um uppsetningu á hlöðum á þjónustustöðvum N1 og er unnið eftir því við að auka enn frekar á möguleika rafbílaeigenda til að hlaða farartækin sín.
Hlaðan á Sauðárkróki er búin hraðhleðslu eftir japönskum og evrópskum staðli auk hefðbundinnar hleðslu (AC).
Hringurinn opinn – þétting netsins
Hringvegurinn er þegar opinn rafbílaeigendum þar sem ON hefur varðað hann hlöðum. Á næstu vikum og mánuðum mun net þessara innviða orkuskipta í samgöngum þéttast með fjölgun hlaða á höfuðborgarsvæðinu og utan hringvegarins. ON leggur áherslu á að hægt sé að sækja þjónustu við hlöðurnar og hefur samstarfið við N1 verið lykilþáttur í hraðri uppbyggingu síðustu misseri.
Víðast eru nokkrir tugir kílómetra á milli hlaða ON. Á milli Norður- og Austurlands er lengst á milli hraðhleðsla en á Skjöldólfsstöðum í Jökuldal hefur ON komið upp búnaði sem hleður hraðar en hefðbundin hleðsla en þar sem ekki er þriggja fasa rafmagn á svæðinu er ekki hægt að setja þar upp hraðhleðslu.
Snjallvæðing hleðslunnar
Í smáforriti ON, ON Hleðsla, er hægt að sjá allar hlöður fyrirtækisins sem og annarra fyrirtækja sem sett hafa upp hlöður. Á snjallborgarráðstefnu í Reykjavík á dögunum komu fram ýmsar vangaveltur um hvað kunni að vera framundan í bættri þjónustu við rafbílaeigendur. Þar var margvísleg nýting netsins til samskipta í forgrunni og nýting rafknúinna innviða á borð við ljósastaura til að dreifa rafmagni til rafbíla. ON, ásamt Orkuveitu Reykjavíkur og Veitum, á í formlegu samstarfi við Reykjavíkurborg um þróun slíkra og fleiri lausna til að ýta undir orkuskipti í samgöngum.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.