Öruggur sigur ÍA í gærkvöldi

Meistaraflokkur karla hjá Tindastóli mætti liði ÍA á Norðurálsvellinum á Akranesi í gærkvöldi. Um erfiðan leik var að ræða en ÍA-menn eru í 2. sæti í riðlinum með 33 stig en Tindastólsmenn sitja í 12. og neðsta sæti með 3 stig.

Hallur Flosason kom liði ÍA yfir með marki á 35. mínútu og á síðustu mínútum fyrri hálfleiks bætti Garðar Bergmann Gunnlaugsson við öðru marki ÍA-manna og staðan 2-0 í hálfleik.

Strax í upphafi seinni hálfleiks kom Andri Adolphsson liði ÍA í 3-0 og fjórum mínútum síðar bætti Garðar Bergmann Gunnlaugsson við sínu öðru marki í leiknum og fjórða marki ÍA-manna. Á 66. mínútu var Andri Adolphsson aftur á ferðinni og skoraði fimmta og síðasta mark ÍA-manna í leiknum.

Eitthvað virðast Tindastólsmenn hafa komist á skrið í seinni hluta síðari hálfleiks þegar staðan var orðin 5-0 fyrir ÍA, en Árni Einar Adolfsson minnkaði muninn með marki á 76. mínútu. Fannar Örn Kolbeinsson bætti svo við öðru marki Tindastólsmanna í leiknum á 83. mínútu. Lokatölur 5-2 fyrir ÍA.

Næsti leikur hjá Tindastól er laugardaginn 23. ágúst, en þá taka strákarnir á móti Víkingi Ó. á Sauðárkróksvelli kl. 16:00.

Fleiri fréttir