Öruggur sigur kvennaliðs Tindastóls í fyrsta leik tímabilsins

Kvennalið Tindastóls fór vel af stað í 1. deildinni í körfubolta um helgina en þá sóttu stúlkurnar lið FSu/Hrunamanna í Iðu á Selfossi. Tindastóll náði strax yfirhöndinni í leiknum, héldu öruggri forystu allt til leiksloka og unnu tuttugu stiga sigur. Bríet Lilja og Tashawna Higgins, sem þjálfar og spilar með liði Tindastóls líkt og í fyrra, voru öflugar í liði Tindastóls og gerðu þær til dæmis fyrstu átta stigin í leiknum og eftir fjögurra mínútna leik var staðan 0-8. Staðan var 13-18 að loknum fyrsta leikhluta og í hálfleik 24-38. Heimastúlkur gerðu vel í þriðja leikhluta og unnu hann 15-13 en í lokafjórðungnum tóku Tindastólsstúlkur aftur völdin og sigruðu að lokum 48-68. Fínn sigur og sem fyrr segir voru Bríet Lilja og Tashawna atkvæðamestar. Bríet Lilja var með 24 stig og 14 fráköst en Tashawna 18 stig, 8 fráköst og 11 stolna bolta. Þriggja stiga nýting beggja liða var í lágmarki (10%) en Tindastóll nýtti 2 skot af 20 og heimastúlkur 1 af 10. Fyrsti heimaleikur Tindastóls í kvennaboltanum er föstudaginn 30. október en þá mæta þær liði Njarðvíkur kl. 21:15. Stig Tindastóls: Bríet Lilja 24, Tashawna 18, Linda Þórdís 8, Særós 6, Þóranna Ósk 4, Kristín Halla 3, Valdís Ósk 3 og Erna Rut 2.

Fleiri fréttir