Ósigur gegn Fram - Næsti leikur á morgun

Meistaraflokkur kvenna hjá Tindastóli mætti liði Fram á Framvelli síðastliðinn miðvikudag. Byrjunin lofaði góðu en fljótlega kom í ljós að Stólastúlkur voru ekki líkar sjálfum sér nema þá helst útlendingarnir, að sögn Guðjóns Arnar Jóhannssonar þjálfara Tindastóls.

Bryndís Rún Baldursdóttir skoraði fyrsta markið í leiknum fyrir Stólanna á 22. mínútu eftir sendingu frá Carolyn Polcari. Eftir það var eins og allur vindur væri úr Stólastúlkum. Á 27. mínútu jafnaði Hulda Mýrdal Gunnarsdóttir stöðuna í leiknum og staðan í hálfleik 1-1.

Í seinni hálfleik kom Rebekka Katrín Arnþórsdóttir Fram yfir á 69. mínútu eftir skot utan af velli sem Bryndís markvörður Stólanna virtist hafa í höndunum og fyrir utan marklínu. Aðstoðadómari veifaði hinsvegar mark og staðan orðin 2-1. Eftir þetta jafnaðist leikurinn aftur og Stólarnir tóku sóknarsén með því að fækka í vörninni og bæta við frammi. Á 93. mínútu náði Fram skyndisókn og skoraði Margrét Regína Grétarsdóttir þriðja mark Fram í leiknum. Lokatölur leiksins 3-1 fyrir Fram.

,,Okkar stelpur eru greinilega mjög þreyttar eftir mörg ferðalög suður í leiki undanfarið þar sem þær hafa þurft að læra undir próf í rútunni. Þær hafa verið að fá próf færð til vegna keppnisferða og því verið mikið álag á þær,” segir Guðjón.

Næsti leikur hjá stelpunum er á morgun, sunnudaginn 18. maí á Hofsósvelli og hefst leikurinn kl.16:00. Fjölmennum á völlin og styðjum stelpurnar okkar áfram!

Áfram Tindastóll!

Fleiri fréttir