Ósigur hjá Stólastúlkum á föstudaginn

Meistaraflokkur kvenna hjá Tindastóli mætti liði Fjölnis á Fjölnisvellinum í Reykjavík á föstudaginn. Fjölnisstúlkur mættu sterkari til leiks og náðu forskoti strax á fyrstu mínútunni þegar Íris Ósk Valmundsdóttir skoraði fyrsta mark Fjölnis í leiknum.

Örfáum mínútum síðar bætti Íris Ósk við öðru marki fyrir Fjölni og á 16. mínútu skoraði Erla Dögg Aðalsteinsdóttir þriðja mark Fjölnisstúlkna í leiknum. Esther Rós Arnarsdóttir skoraði svo fjórða markið fyrir Fjölnisstúlkur á 42. mínútu. Staðan í hálfleik 4-0.

Seinni hálfleikur var tíðindaminni en á 76. mínútu skoraði Íris Ósk þriðja mark sitt í leiknum og fimmta mark Fjölnisstúlkna. Lokatölur 5-0 fyrir Fjölni.

Stólastúlkur eru nú í 4. sæti riðilsins með 8 stig eftir 5 leiki. Næsti leikur hjá stelpunum er sunnudaginn 22. júní, en þá taka þær á móti HK/Víking á Sauðárkróksvelli.

Fleiri fréttir