Öxin, Agnes og Friðrik - síðustu sýningar á Sögulofti Landnámssetursins

Magnús á Þrístöpum. Mynd:FB/Magnús - Dynur og Saga.
Magnús á Þrístöpum. Mynd:FB/Magnús - Dynur og Saga.
Síðustu sýningar Magnúsar Ólafssonar á Öxin, Agnes og Friðrik sem fara fram á Sögulofti Landnámssetursins í Borgarnesi verða föstudaginn 31. júlí klukkan 20 og laugardaginn 1. ágúst klukkan 16. Þeir sem hafa komið á sýninguna á Söguloftinu eða farið með sögumanni í hestaferðir um söguslóðir fá ókeypis leiðsögn um sögustaði sögunnar í Húnaþing sunnudaginn 2. ágúst eða mánudaginn 3. ágúst, á frídegi verslunarmanna.
 

Sérhver þátttakandi útvegar sér far sjálfur í söguferðina eða kemur á eigin bíl. Heimilt er þátttakendum að koma aðeins á einn eða fáa af sögustöðunum. Söguferð hvors dags hefst á Þrístöpum klukkan 13. Þar verður farið yfir kjarna sögunnar báða dagana. Engin ástæða fyrir nokkurn að koma þangað nema annað hvorn daginn, en heimilt að því er segir í tilkynningu.

  • Á sunnudag verður síðan stansað hjá Stóru Borg klukkan 15. Þar voru réttarhöld og þar var Agnes í haldi og þaðan sér yfir stóran hluta af sögusviðinu.
  • Klukkan 15:30 verður stansað við Vatnsenda. Þar verður talað um Skáld Rósu þá merku konu, sem í æsku var svikin af Páli sýslumanni og var ástmær Natans í nokkur ár.
  • Klukkan 17:30 verður komið að Tjörn á Vatnsnesi. Gengið að leiði Agnesar og Friðriks og vonandi verður hægt sýna bikarinn sem Guðmundur Ketilsson fékk frá Konunglega Danska landbúnaðarfélaginu fyrir endurbætur á Illugastöðum. 
  • Söguferð þessa dags líkur á Illugastöðum klukkan 19. Þar voru morðin framin og þar sér enn fyrir smiðju Natans.

Á mánudag verður sögumaður klukkan 13 á Þrístöpum og klukkan. 14:30 á Þingeyrum. Þeir sem vilja ganga í Þingeyrakirkju og skoða hana hafa tíma til þess undir leiðsögn kirkjuvarðar. Inngangseyri þarf að greiða fyrir að skoða kirkjuna. 

  • Síðan verður ekinn hringur um Vatnsdal. 
  • Klukkan 16:30 verður stansað á Kornsá. Þar ólst Agnes upp að hluta og þar dvaldi hún síðustu mánuði í lífi sínu.
  • Klukkan 17:30 verður stansað við Hvamm. Þar bjó Björn Blöndal sýslumaður.
  • Klukkan 19 verður komið að Geitaskarði. Þar hófust kynni Agnesar og Natans Ketilssonar.

Þeir sem ekki hafa komið á Sögustundir í Borgarnesi eða í hestaferðir með sögumanni greiða sérstakt gjald fyrir þátttöku í ferð um sögustaði.

Húni segir frá.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir