Rúmar þrjár milljónir í atvinnumál kvenna í Skagafirði

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, ásamt fríðum hópi styrkþega. Mynd: atvinnumalkvenna.is.
Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, ásamt fríðum hópi styrkþega. Mynd: atvinnumalkvenna.is.

Styrkjum til var úthlutað þann 17. maí og fengu 29 verkefni styrki að upphæð kr. 40 milljónir. Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra afhenti styrkina í athöfn sem fór fram í Hörpu. Þrír styrkjanna rataði í Skagafjörðinn. Styrkjum til atvinnumála kvenna hefur verið úthlutað síðan 1991 og eru þeir ætlaðir frumkvöðlakonum eða fyrirtækjum í þeirra eigu. Skilyrði styrkveitinga eru þau að verkefnin séu í meirihlutaeigu kvenna, stjórnað af þeim og feli í sér nýnæmi eða nýsköpun af einhverju tagi.

Ekki er nauðsynlegt að vera með starfandi fyrirtæki til að sækja um styrk og því er heimilt að sækja um vegna verkefna á byrjunarstigi en einnig geta þær konur sótt um styrk sem eru að þróa nýjungar í starfandi fyrirtækjum. Unnt er að sækja um styrki til gerðar viðskiptaáætlunar, vegna markaðssetningar, vöruþróunar, hönnunar og vegna launakostnaðar en ekki eru veittir styrkir til framkvæmda eða vegna stofnkostnaðar.

Í ár bárust 135 umsóknir og hefur ráðgjafarnefnd metið umsóknir á undanförnum vikum. Nefndina skipa þær Herdís Á. Sæmundardóttir, Guðrún Stella Gissurardóttir, Elín Gróa Karlsdóttir, Elín Sigríður Þórðardóttir og Kolbrún Ágústa Guðnadóttir.

Verkefnin eru af ýmsum toga en hæsta styrkinn, eða fjórar milljónir, hlaut Anna Bryndís Blöndal fyrir verkefni sitt „Lyfjafræðileg umsjá“.

Þrír styrkjanna koma í hlut kvenna í Skagafirði hlaut Hilma Eiðsdóttir í Stekkholti, Hilma- hönnun og handverk – kr. 1.500.000 til markaðssetningar, vöruþróunar, hönnunar og efniskostnaðar á verkefninu „Þaraband“.

Stefanía Hjördís Leifsdóttir, Brúnastöðum í Fljótum, fær kr. 1.000.000 til vöruþróunar fyrir „mjöltun sauð- og geitfjár og ostavinnsla auk heimavinnslu úr ær- og geitakjöti“.

Í hlut Elínborgar Erlu Ásgeirsdóttur, Breiðargerði í Lýdó, komu kr. 896.000 til vöruþróunar og efniskostnaðar vegna verkefnisins „Lífrænar baunir og ertur“.

Sjá nánar HÉR

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir