Safetravel dagurinn í áttunda sinn

Slysavarnarfélagið Landsbjörg stóð fyrir Safetravel deginum í áttunda sinn síðastliðinn föstudag. Safetravel dagurinn er haldinn í því skyni að vekja athygli á umferðaröryggi og standa slysavarna- og björgunarsveitir vaktina og spjalla við ökumenn víðsvegar um landið um ábyrgan akstur.
Að þessu sinni dreifðust liðsmenn sveitanna á 66 fjölfarna staði á landinu og spjölluðu við fólk á ferðinni um góða ferðahegðun, s.s. um umferðarhraða og hættuna sem fylgir notkun síma við stýrið, jafnframt því sem þeir afhentu poka sem innihélt ýmiss konar fræðsluefni og heilræði.
Félagar úr Slysavarnadeildinni Hörpu á Hofsósi létu ekki sitt eftir liggja og hittu fyrir ferðamenn sem lögðu leið sína um þorpið en þar var mikil umferð í tengslum við bæjarhátíðina Hofsós heim.
Þetta er í áttunda sinn sem Safetravel dagurinn er haldinn en hann markar einnig upphaf hálendisvaktarinnar sem björgunarsveitirnar starfrækja á hverju sumri. Þá eru liðsmenn björgunarsveitanna til taks á hálendinu vegna leitar- og björgunaraðgerða sem styttir viðbragðstíma ásamt því að veita ferðalöngum leiðbeiningar og fræðslu.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.