Sárvantar betri aðstöðu og fólk inn í stjórnir og ráð
Knattspyrnudeild Tindastóls stendur um þessar mundir á ákveðnum krossgötum ef svo má að orði komast. Framundan er nýtt keppnistímabil en að sögn Ómars Braga Stefánssonar formanns deildarinnar ríkir óvissa um framhaldið þar sem flestir, ef ekki allir í stjórn deildarinnar, ætla að leggja skóna á hilluna og stíga til hliðar. Um er að ræða hóp fólks sem býr yfir gríðarlegri reynslu og því segir Ómar Bragi óvissa vera um framhaldið þó svo alltaf komi maður í manns stað.
Ómar Bragi segir aðstöðuleysið til knattspyrnuiðkunar vera komið í algjört óefni og að iðkendur, þjálfarar og þeir sem standa á bak við starfið séu komnir í þrot í þeim málum.„Það eru allir búnir að fá meira en nóg, iðkendur, þjálfarar og við sem stöndum á bak við þetta. Frá því á haustin og fram á sumar höfum við nánast bara litla sparkvöllinn við Árskóla til að æfa á. Knattspyrnan fær færri og færri tíma í íþróttahúsinu á hverju ári og við erum farin að dragast hratt aftur úr öðrum liðum sem við viljum bera okkur saman við,“ segir Ómar Bragi.
Hann óskar þess heitast að það verði úr metnaðarfullum hugmyndum sem knattspyrnudeildin hefur unnið að undanfarin misseri og myndu að hans sögn gjörbylta starfseminni. „Ég trúi því að eitthvað muni gerast í þessum málum - fyrr en seinna,“ bætir hann við.
Aðspurður um hvernig starfsemi knattspyrnudeildarinnar er háttað svarar Ómar Bragi að þetta sé í raun eins og hvert annað fyrirtæki sem veltir miklum fjármunum.
„Mikill tími fer í að safna peningum og ná í samstarfsaðila. Ráða þjálfara og skipuleggja starfið frá a-ö. Þá þarf að skrá lið í mót, halda utan um heimaleiki og sjá um ferðir í útileiki,“ tekur Ómar Bragi sem dæmi af fjölbreyttu starfi deildarinnar.
Mikilvægt að fá nýtt fólk inn í stjórn
Vetrarstarf knattspyrnudeildarinnar er farið af stað, búið er að ráð þjálfara fyrir yngri flokkana og er að verið að vinna að ráðningum þjálfara fyrir meistaraflokkana. Ómar Bragi segir samkomulag vonandi nást við Guðjón Örn Jóhannsson og Dúfu Dröfn Ásbjörnsdóttur um meistaraflokk kvenna en meistaraflokkur karla sé enn í vinnslu en knattspyrnudeildin auglýsti eftir þjálfara á dögunum.
Til stendur að halda auka aðalfund innan tíðar og segir Ómar Bragi mikilvægt að fá nýtt fólk inn í stjórn þar sem fyrri stjórnarmeðlimir séu að leggja skóna á hilluna.
„Það er gaman að vinna að þessu verkefni en vissulega tekur það tíma. Nú er bara að sjá hvort einhver sé tilbúinn að taka við keflinu og halda áfram því góða starfi sem unnið er,“ svarar Ómar Bragi og bætir við að án nýrrar stjórnar sé ekkert framundan, svo einfalt sé það.
Ómar Bragi hefur verið viðloðandi knattspyrnu á Sauðárkróki um áraraðir en hann kom fyrst inn í stjórn fyrir 40 árum árið 1974, þá 17 ára gamall. „Nánast öll þau ár sem ég hef búið hérna á Króknum hef ég verið í stjórn og ansi mörg sem formaður. Minn frítími hefur farið í þetta meira og minna alla mína ævi. Ég hef verið lánsamur að eiga góða fjölskyldu sem hefur stutt mig í þessu alla tíð, öðruvísi er þetta ekki hægt.“
Að lokum segist hann viss um að framtíðin sé björt ef breyting verður á aðstöðumálum. „Við eigum mikið af efnilegum börnum og ungmennum í fótboltanum. Öllu skiptir að skapa börnum okkar og ungmennum viðundandi aðstöðu - þá eigum við okkur framtíð.“