Selfyssingar fóru heim með stigin þrjú
Tindastóll og Selfoss mættust í 1. deild karla á Sauðárkróksvelli í gærkvöldi. Selfyssingar hafa ekki verið að gera sérstakt mót í sumar en það reyndist ekki stórkostlegt vandamál að leggja Stólana í gras í gær en sífellt kvarnast úr liði heimamanna. Lokatölur voru 0-2.
Það voru engar partíaðstæður á vellinum í gær, kalt og norðansuddi en leikmenn gerðu sitt besta til að spila fótbolta. Selfyssingar höfðu vindinn í fangið í fyrri hálfleik en voru talsvert hættulegri án þess þó að skapa sér dauðafæri. Fyrsta mark leiksins kom eftir um 20 mínútna leik en þá fengu Selfyssingar hornspyrnu. Einbeitingin var ekki í lagi hjá heimamönnum og boltinn skaust inn á markteig þar sem gestirnir voru fyrri til og Andri Björn Sigurðsson skóflaði boltanum í markið. Ódýrt. Korteri síðar bættu þeir um betur, unnu boltann á vallarhelmingi Tindastóls og sóttu hratt að marki, Elton Barros fékk boltann á vítateigslínu og afgreiddi hann laglega í vinstra hornið. Tindastólsmenn sköpuðu sér lítið í fyrri hálfleik en fengu eina eða tvær aukaspyrnur á sæmilegum stað en ekki náðist að nýta þær.
Í síðari hálfleik komu heimamenn baráttuglaðir til leiks og til að gera langa sögu stutta þá hélt vörnin en hana skipuðu að þessu sinni Loftur, Fannar Kolbeins, Bjarni Smári og Bjarki þjálfari. Næst komust Selfyssingar því að skora þegar þeir áttu hörkuskot í þverslá en Kristinn Snjólfsson setti boltann sömuleiðis í slá Selfossmarksins og undir lokin fengu Stólarnir ágætt færi en náðu ekki nógu föstu skoti að marki og gestirnir náðu að bjarga á línu.
Leikbönn og meiðsli settu svip sinn á lið Stólanna í gærkvöldi og nokkrir leikmanna liðsins sem kláruðu leikinn í gær varla í nokkru standi til að klára erfiðan leik. Þrír leikmenn, Guðni, Ben og Hólmar, fóru meiddir af velli í gær og einhverjir til viðbótar hefðu sennilega þurft að yfirgefa völlinn löngu áður en yfir lauk en bitu á jaxlinn. Í raun hafa stanslaus meiðsli og leikbönn í sumar komið í veg fyrir að jafnvægi næðist í leik Stólanna og má fullvíst telja að Bjarki hafi aldrei getað stillt upp sama liði tvo leiki í röð. Nú er ljóst að fall í 2. deild verður niðurstaða sumarsins en Tindastólsmenn verða að sýna úr hverju þeir eru gerðir og berjast áfram allt til enda. Leikur liðsins var ágætur í síðari hálfleik í gær og ef liðið hættir að gefa ódýr mörk og fer að endurheimta menn úr meiðslum þá gæti verið von til að bæta við stigatöluna.
Þá má geta þess að ágætur vallarþulur sagðist ætla að spila Geirmund í leikhléi en áhorfendur fengu síðan bara að hlýða á útlenskar endurvinnslur – menn auglýsa eitt og annað... ;)