Simmons til liðs við Stólana

Bakvörðurinn Gerel Simmons – ekki Gene Simmons, bassaleikari Kiss. MYND AF NETINU
Bakvörðurinn Gerel Simmons – ekki Gene Simmons, bassaleikari Kiss. MYND AF NETINU

Körfuknattleiksdeild Tindastóls hefur gengið frá samningi við bandarískan leikmann fyrir komandi keppnistímabil í Dominos-deildinni. Þar er um að ræða Gerel Simmons sem er 188 sm á hæð og fjölhæfur bakvörður. Hann er fæddur 1993 og því 26 ára gamall en kappinn hefur á sínum ferli komið víða við.„Von er á Simmonsfyrir göngur og mun hann styrkja okkur í barráttunni á næsta tímabili,“ segir í fréttatilkynningu Kkd. Tindastóls.

Eftir því sem Feykir kemst næst er Simmons fín skytta og góður varnarmaður auk þess að vera hinn fínasti liðsfélagi. Hann er sagður vera fljótur að aðlagast leikstíl félaga sinna. Simmons var í Lincoln Memorial University til ársins 2016 en hefur síðan spilað í búlgörsku deildinni, í Svartfjallalandi, Saudi Arabíu, í Argentínu og Uruguay. Á síðasta tímabili spilaði hann með Ahly-Tripoli í Lýbíu. Feykir sver ekki fyrir að þessi upptalning sé tæmandi eða nákvæm.

Þar með hafa Stólarnir gengið frá samningum við þrjá erlenda leikmenn; Kanann Gerel Simmons, Króatann Jasmin Perkovic og Slóvenann Jaka Brodnik sem spilaði með Þór Þorlákshöfn á síðasta tímabili. Miðað við þessa leikmenn sem Baldur Þór hefur fengið til liðsins þá verður talsvert annar bragur á leik Tindastóls næsta vetur en var undir stjórn Israel Martin. Það verður spennandi að sjá hvernig til tekst með að búa til öflugt lið og víst að margir stuðningsmenn Tindastóls eru farnir að hlakka til haustsins.

Hér má sjá nokkur tilþrif Simmons þegar hann spilaði í Uruguay >

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir