Skagaströnd fær hámarksúthlutun

Í frétt á vef Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins kemur fram að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, hefur úthlutað 6.824 þorskígildistonna byggðakvóta fiskveiðiársins 2013/2014, samkvæmt 10. gr. laga nr. 116/2006. Skagaströnd fær hæstu úthlutun sem eitt byggðalag getur fengið, eða 300 tonn.

Alls er byggðakvóta úthlutað til 32 sveitarfélaga og í þeim fengu 47 byggðarlög úthlutun. Fjögur sveitarfélög á Norðurlandi vestra fá alls 606 tonna úthlutun. Húnaþing vestra fær 55 tonn fyrir Hvammstanga, Blönduósbær 140 tonn fyrir Blönduós, Skagaströnd 300 tonn og Sveitarfélagið Skagafjörður 111 tonn vegna Hofsóss og Sauðárkróks.

Úthlutun byggðakvótans byggir á upplýsingum frá Fiskistofu um samdrátt í botnfiskafla, botnfiskaflamarki og vinnslu botnfisks annars vegar og samdrætti í rækju- og skelvinnslu hins vegar frá fiskveiðiárinu 2003/2004 til fiskveiðiársins 2012/2013.

Hámarksúthlutun til byggðarlags er 300 þorskígildistonn og fá sex byggðarlög það hámark, þeirra á meðal Skagaströnd. Lágmarksúthlutun er 15 þorskígildistonn, eigi byggðarlag á annað borð rétt til úthlutunar, og fá fimm byggðarlög þá úthlutun.

 

 

Fleiri fréttir