Skagfirðingur með silfur í Norrænu nemakeppninni

Kristinn Gísli Jónsson matreiðslunemi á Dill, landaði ásamt Ásdísi Björgvinsdóttur nema á Bláa lóninu, silfurverðlaunum í Norrænu nemakeppninni matreiðslu- og framreiðslunema sem fram fór í Hótel og matvælaskóla Finna í Helsinki. Auk þeirra Kristins og Ásdísar, kepptu þær Gréta Sóley Argrímsdóttir og Alma Karen Sverrisdóttir nemar frá Hótel Natura í framreiðslu. Enduðu þær í 4. sæti af fimm.
„Við vorum með einn grænmetisrétt og fjóra smárétti fyrri daginn en seinni daginn vorum við með fjögurra rétta gala-dinner,“ sagði Kristinn Gísli þegar Feykir hafði samband við hann í morgun. Hann segir að keppni hafi verið erfið og liðin fjögur sem þau kepptu við mjög sterk.
Úrslit urðu þau að í framreiðslu sigraði Finnland, í öðru sæti Danmörk, Noregur kom þar á eftir en Ísland hafnaði í 4. sætinu.
Í matreiðslunni sigraði Svíþjóð, Ísland hampaði silfrinu og Danmörk landaði þriðja sætinum.
Tengdar fréttir.
Kristinn Gísli sigraði í nemakeppni í matreiðslu
Tveir skagfirskir Íslandsmeistarar í iðn- og verkgreinum
Tveir Skagfirðingar í læri á Dill, fyrsta Michelin-stjörnu-staðnum á Íslandi