Skráði sig upphaflega sem nemanda en var fenginn í kennslu

Skarphéðinn H. Einarsson á Blönduósi hefur í aldarfjórðung skipað stóran sess í tónlistarlífinu þar í bæ. Hann er fæddur á Sölvabakka í Húnavatnshreppi og uppalinn á Blönduósi en fór ungur í iðnnám, „til að komast að heiman,“ og datt þá í hug að læra á gítar. Skarphéðinn er í opnuviðtali í Feyki vikunnar en þar segir hann m.a. frá því þegar hann flutti aftur Blönduós um 1970, um það leyti sem verið var að stofna Tónlistarskólann þar í bæ.

Þá er auglýst, með götuauglýsingu eins og var í þá daga, og mér datt í hug að setjast niður og fara að læra svolítið á gítar, svo ég skráði mig í skólann,“ útskýrir Skarphéðinn.

„Þegar kennarinn, Einar Logi Einarsson, fór svo að fara yfir umsóknirnar og sá að einn nemandinn var mikið eldri en allir hinir fór hann að spyrjast fyrir. Hann hringdi í mig og þegar við vorum búnir að tala saman kom í ljós að ég kunni miklu meira á gítar heldur en hann. Þannig að hann spurði hvort ég gæti ekki bara kennt, það væru svo margir nemendur sem vildu læra á gítar.“ Þannig snerist dæmið við og Skarphéðinn fór að kenna í tvo til þrjá vetur við skólann, á gítar og blokkflautu.

Tónlistin átti síðan eftir að vera ævistarf hans, þó hann hafa komið víða við áður en hann varð tónlistarkennari. Skarphéðinn hefur stýrt Tónlistarskóla Austur-Húnvetninga í tæpa tvo áratugi og fer „alveg að komast á aldur“. Hann kíkti við hjá Feyki á dögunum og sagði blaðamanni frá ferlinum og fleiru áhugaverðu sem á daga hans hefur drifið en viðtalið í heild sinni má lesa í blaðinu sem kom út í dag.

Fleiri fréttir