Sláturtíðin gekk vel á Blönduósi

Sláturtíðin gekk vel hjá SAH Afurðum á Blönduósi en hún hófst þann 4. september sl. Búið að slátra yfir 100 þúsund fjár sem er svipaður fjöldi og í fyrra og er fallþungi lamba að meðaltali um 15,98 kíló, sem er um 360 grömmum léttari en síðasta haust, að sögn Gunnars Tryggva Halldórssonar framkvæmdastjóra fyrirtækisins.

„Við erum mjög ánægð með haustið, með þennan árangur og hvað vel hefur gengið,“ segir Gunnar í samtali við Húnahornið og bætir við að starfsfólkið, sem er að stórum hluta erlent, fari til síns heima um helgina en áætlað var að sláturtíð lyki í gær. „Oft hefur þó verið einhver slátrun eftir að sláturtíð lýkur en það getum við vel afgreitt með föstum starfsmönnum.“

Gunnar segir að vel hafi gengið að fá starfsfólk, hvort sem um sé að ræða sláturtíðarfólk eða fasta starfsmenn. „Við fengum í þessari sláturtíð yfir 90% af starfsfólki sem var hér hjá okkur í seinustu sláturtíð. Með reyndu fólki sem þekkir okkar starfsemi náum við upp fullum afköstum strax á fyrsta degi.“

Annasamt fram að jólum

Samkvæmt Gunnari er í mörg horn að líta þessa dagana þar sem stórgripaslátrun hafi verið mikil hjá sláturhúsinu síðsumars og í haust. „Folaldaslátrun hófst að krafti í byrjun september samhliða sauðfjárslátrun. Við höfum tekið um 1000 stórgripi til slátrunar nú í september og október, þar af 500 folöld. Við reiknum með að slátra 1000 folöldum til viðbótar fram að jólum. Fullorðnum hrossum og nautgripum er slátrað allt árið hér á Blönduósi. Það sem af er þessu ári höfum við slátrað rúmum 3000 stórgripum en reiknum með að sú tala verði nálægt 5000 í árslok.“

Tíminn fram að jólum annasamur hjá SAH Afurðum þar sem verkefnin eru næg. „Við reykjum um 70 tonn af hangikjöti fyrir þessi jólin auk þess sem þorramaturinn er óðum að komast í súrtunnurnar. Sviðasulta er framleidd ný í hverri viku auk annarra hefðbundinna kjötvinnsluverkefna. Við erum bara jákvæð hér á Blönduósi og fögnum því hvað veturkonungur var blíður þetta haustið,“ segir Gunnar að lokum.

Heimild:Húnahornið

Fleiri fréttir