Söngdagar í Skálholti
Helgina 28. – 31. ágúst stendur Landssamband blandaðra kóra fyrir Söngdögum í Skálholti. Stjórnendur verða Lynnel Joy Jenkins frá Bandaríkjunum og Jón Stefánsson, kantor í Langholtskirkju.
Æft verður í tveimur hópum og einnig sameiginlega. Báðir stjórnendur vinna með báðum hópum og verða sungin ættjarðarlög, heimstónlist, bandarísk kórtónlist, kirkjuleg og veraldleg lög.
Boðið er upp á tvo möguleika til þátttöku. frá fimmtudagskvöldi til sunnudags og frá föstudagskvöldi til sunnudags. Dagskrá lýkur með messu og stuttum tónleikum eftir hádegi á sunnudag.
Hámarksfjöldi þátttakenda er um 130 manns. Kórfélagar í aðildarkórum LBK ganga fyrir við skráningu og greiða lægra verð en kórfélagar utan sambands.
LBK hvetur blandaða kóra til að ganga í sambandið og styrkja starfsemina. Upplýsingar og skráning á netfanginu lbk@lbk.is. Lokadagur skráningar er 15. júní.
Þátttökugjald fyrir LBK félaga: kr. 5.000.- (sama verð fyrir 2 og 3 daga). Aðrir greiða kr. 7.500. Dvalar- og fæðiskostnaður verður greiddur í Skálholti. Við skráningu þarf að greiða staðfestingargjald kr. 2.000. Það verður ekki endurgreitt ef hætt verður við þátttöku. Greitt er inn á reikning LBK. Nánari upplýsingar á heimasíðu LBK og hjá starfsmanni.
/Fréttatilkynning frá stjórn Landssambands blandaðra kóra.