Spennandi verkefni með mikla möguleika
Nýsköpunarmiðstöð Íslands, í samstarfi við Kaupfélag Skagfirðinga og Sveitarfélagið Skagafjörð, efndi á dögunum til samkeppni um góðar viðskiptahugmyndir undir yfirskriftinni Ræsing í Skagafirði. Þrjú verkefni voru valin til frekari þróunar af 24 umsóknum og voru þau kynnt í Verinu Vísindagörðum á Sauðárkróki sl. föstudag.
Að sögn Guðmundar Óla Hilmissonar verkefnisstjóra hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands heppnaðist kynningin mjög vel. Um 30 manns voru viðstaddir til að hlusta á kynningar á verkefnum þremur, verkefni Harðar Sveinssonar um lífræna byggingareinangrun, Hildar Þóru Magnúsdóttur um þurrkun á skjaldkirtli úr sláturdýrum og Regins Grímssonar sem vill byggja einingarhús úr trefjaplasti.
Að kynningu lokinni undirrituðu þau samstarfssamning við Þorstein Inga Sigfússon, forstjóra Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Nánari umfjöllun um verkefnin er í Feyki sem kom út í dag.