Spennandi viðureign Stólanna og Stjörnunnar - FeykirTV
Tindastóll tók á móti Stjörnunni í hörkuleik í Síkinu á Sauðárkróki, eins og sagt var á Feyki.is í gærkvöldi. FeykirTV myndaði viðureignina og ræddi við Kára Marísson aðstoðarþjálfara eftir leikinn en þar segir hann m.a. að liðið hafi ekki verið með sama ryþma og það var fyrir jól og jafnframt að lið Stjörnunnar hafi verið það sterkasta sem hafi heimsótt Síkið í vetur.
„Vonandi notum við þennan leik og byggjum ofan á það sem við gerum núna í framhaldinu til að ná fyrri ryþma og flæði í liðið og ýmsu sem mér finnst ekki hafa komið fram í þessum leik,“ segir Kári í samtali við FeykiTV.
Kári bætir við að hann sé sáttur við niðurstöðuna. Liðið hafi náð settu markmiði en ætlunin var að hvíla yngri leikmenn liðsins, sem einnig spila í drengja- og unglingaflokki, þar sem erfiðir leikir séu framundan hjá þeim um helgina.
Lokatölur urðu 91-82 og þar með tryggðu Tindastólsmenn stöðu sína í 2. sæti Dominos-deildarinnar, með 20 stig, en Stjarnan er enn í því þriðja líkt og áður en deilir nú því sæti með Haukum sem einnig eru með 14 stig.
Næsti leikur Tindastóls er útileikur á móti Þór Þorlákshöfn þann 15. janúar nk.
http://youtu.be/joK8FnugpFA