Stefnir að miðju Íslands – Hestamaðurinn Sigfús Ingi Sigfússon

Sigfús Ingi á ferð um Þingeyjarsýslur sl. sumar. Aðsend mynd.
Sigfús Ingi á ferð um Þingeyjarsýslur sl. sumar. Aðsend mynd.

Líklegt má telja að hestafólk hafi fagnað kærkomnum tilslökunum frá Covit takmörkunum í sumar, lagt á sína traustu gæðinga og lagt landið undir hóf. Það gerði a.m.k. sveitarstjóri Sveitarfélagsins Skagafjarðar, Sigfús Ingi Sigfússon, í júlí síðastliðnum og ferðaðist, ekki bara innan lands heldur innan héraðs, á fjórfættum hófaljónum. Feykir hafði samband við Sigfús sem sagði varla hægt að kalla sig hestamann en hann hefur þó gaman af að leggja á bak góðum hestum og svarar hér spurningum í Hestamanninum á Feyki.

Sigfús Ingi býr í Stóru-Gröf syðri á Langholti í Skagafirði, kvæntur Laufeyju Leifsdóttur og eiga þau þrjú börn, Leif Benedikt, Steinar Óla og Sigurbjörgu Ingu. Hann er sonur Sigfúsar Helgasonar og Guðrúnar Gunnsteinsdóttur sem bjuggu lengst af í Stóru-Gröf en búa nú á Sauðárkróki.

Hve mörg hross átt þú eða fjölskylda þín? -Það er svolítið breytilegt frá einum tíma til annars en við erum að reyna að takmarka okkur við u.þ.b. 20 stykki.

Hver er fyrsta minningin tengd hestum? -Ætli það séu ekki reiðtúrar á þeim Skjóna og Bleik sem voru barnahestar æsku minnar. Ekki beint viljahross en afar hentugir fyrir börn.

Er eitthvert hestanafn sem þú manst eftir sem talið getur óvenjulegt eða skrítið? -Þau eru auðvitað nokkur sem maður hefur rekið augun í. Það er ágætur nafnabanki í WorldFeng sem ég fletti iðulega í gegnum þegar ég er að velja nöfn á mín folöld. Þar eru sérkennileg nöfn eins og Afsökun, Skömm, Asni, Skelfing o.fl. sem ég vona að séu ekki of lýsandi fyrir viðkomandi hross.

Hver er uppáhaldshesturinn þinn og af hverju? -Ja, það er nú það. Við eigum nokkra alveg ágæta hesta en þau hross sem mér líkar best við eru ganggóð viljahross sem nýtast vel í bæði reiðtúra og smalamennsku. Svo höfum við fengið spennandi hesta úr tamningu núna í sumar sem lofa góðu.

Hvað var það skemmtilegasta sem þú gerðir í sumar, tengt hestum? -Það er líklega hestaferð sem við fórum í með ágætum vinum okkar en sú ferð var um Skagafjörðinn að þessu sinni. Félagsskapurinn var góður, umhverfið fallegt, hrossin fín og veðrið gott, þannig að maður gat ekki beðið um mikið betra.

Áttu einhverja sögu tengda hesti sem fallinn er frá? -Ekki neina merkilega sögu en því miður þurfti að fella minn fyrsta hest þegar ég var krakki sem var auðvitað hábölvað á þeim tíma.

Hvað ertu að gera þessa dagana, eða á næstunni, tengt hestum? -Það er á döfinni að ríða upp að landfræðilegri miðju Íslands en sú miðja er að sjálfsögðu í Sveitarfélaginu Skagafirði, norðaustan undir Hofsjökli.

Áður birst í 30. tbl. Feykis 2020

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir