Sterkur sigur á ÍR í Breiðholtinu

Tindastóll bar í kvöld sigurorð af ÍR-ingum í Hertz-hellinum í Seljaskóla í fimmtu umferð Dominos-deildarinnar. Stólarnir náðu smá forskoti í öðrum leikhluta og bættu við í þeim þriðja. Heimamenn söxuðu á forskotið á lokamínútunum en náðu ekki að ógna forystu Stólanna að ráði. Lokatölur 86-92.

Heimamenn í ÍR byrjuðu leikinn betur ok komust í 9-4 eftir 96 sekúndur. Stólarnir þéttu vörnina og leikurinn jafnaðist. Staðan 19-19 að loknum fyrsta leikhluta eftir að Flake kastaði niður þristi. Þriggja stiga körfur frá Helga Margeirs og Dempsey bjuggu til forskot fyrir gestina sem voru yfir 28-37 um miðjan leikhlutann en í hálfleik var staðan 38-46.

Baráttan hélt áfram í upphafi þriðja leikhluta. ÍR-ingar brutu óíþróttamannslega á Finnboga á 23. mínútu og hann notaði mínútuna vel, setti vítaskotin niður af öryggi og setti síðan þrist og jók muninn í 13 stig, 45-58. Pétur var sjóðheitur utan 3ja stiga línunnar í þriðja leikhluta og setti niður þrjá þrista. Þegar fjórði leikhluti hófst var staðan 60-73 og heimamenn komnir upp að vegg. Tindastólsmenn héldu ÍR-ingum í mátulegri fjarlægð, munurinn yfirleitt 10-12 stig þangað til tvær mínútur voru eftir að þeir fóru að nálgast Stólana betur. Staðan varð 80-87 en Darrel Lewis var að vanda góður á lokakaflanum og setti niður mikilvæg stig. Sveinbjörn Claessen minnkaði muninn í 85-89 þegar hálf mínúta var eftir en Lewis kláraði leikinn af vítalínunni.

Lið Tindastóls var jafnt í leiknum. Helgi Viggós átti góðan leik, gerði 14 stig, tók 9 fráköst, átti 4 stoðsendingar og stal 3 boltum. Lewis var stigahæstur með 18 stig og 8 fráköst. Þá átti Viðar góða innkomu, gerði 7 stig og tók 7 fráköst. Dempsey nýtti sínar fáu mínútur vel, hann lék í rúmar 17 mínútur, gerði 14 stig, tók 7 fráköst og fékk 5 villur. Þriggja stiga nýting Stólanna var fín eða 41% (9/22) en vítanýtingin er enn slæm, 62% á meðan hittni ÍR var 81%. Tindastóll frákastaði mun meira en heimamenn, hirtu 46 fráköst en ÍR-ingar 35 og munar um minna.

Stig Tindastóls: Lewis 18, Helgi Viggós 14, Dempsey 14, Pétur 14, Helgi Margeirs 8, Viðar 7, Ingvi 5, Finnbogi 5, Flake 5 og Svavar 2.

Fleiri fréttir