Stólarnir stálu stigi á Kópavogsvelli

Konni fagnar marki. Hér reyndar gegn Sindra fyrr í sumar. MYND: ÓAB
Konni fagnar marki. Hér reyndar gegn Sindra fyrr í sumar. MYND: ÓAB

57 áhorfendur sáu lið Tindastóls stela nettu stigi þegar strákarnir gerðu 3-3 jafntefli gegn liði Augnabliks í 3. deildinni í dag. Kópavogspiltarnir voru lengstum betra liðið en Stólarnir sýndu hörku karakter og neituðu að lúta í gras og uppskáru jöfnunarmark í uppbótartíma. Stig sem gæti reynst dýrmætt þegar talið verður upp úr kössunum í haust – eða þannig.

Blikarnir yfirspiluðu lið Tindastóls fyrsta hálftímann en vörnin hélt og Stólarnir komust inn í leikinn, fóru að ná að spila út úr vörninni en það var þó gegn gangi leiksins sem strákarnir komust yfir á 37. mínútu. Þá fór Benni illa með vörn heimamanna og sendi boltann fyrir mark Augnabliks þar sem Isaac Owusu kom á ferðinni og skoraði. Heimamenn voru snöggir að snúa leiknum sér í hag því þeir gerðu tvö mörk í hvelli, fyrst Breki Barkarson á 39. mínútu og síðan Þorleifur Úlfarsson á 42. mínútu. Staðan 2-1 í hálfleik.

Lið Tindastóls var ekki lengi að jafna metin í síðari hálfleik en á 49. mínútu stangaði Michael Ford boltann í mark Augnabliks eftir góðan undirbúning Luke Rae. Hart var barist í framhaldinu en á 80. mínútu braut Isaac (sá enski) af sér í teignum og Þorleifur skoraði úr vítinu. Lið Tindastóls fékk síðan tvö dauðafæri á lokamínútum leiksins. Fyrst skallaði Konni í þverslá af örstuttu færi eftir aukaspyrnu en á 91. mínútu kom jöfnunarmarkið. Stólarnir fengu þá aðra aukaspyrnu sem Benni skrúfaði yfir á fjærstöng þar sem Konni var mættur og skallaði í netið.

Það er að sjálfsögðu sterkt að ná í stig á erfiðum útivelli þegar liðið er ekki að spila vel. Að sögn Óskars Smára, sem Feykir náði í að leik loknum, var Þorbergur Þór Steinarsson, hægrikantur Augnabliks, langbestur á vellinum og lék vörn Tindastóls grátt. Í liði Tindastóls voru Konni og Benni bestir. 

Lið Tindastóls er með 15 stig eftir átta leiki og er í þriðja sæti deildarinnar. Mánudaginn 3. ágúst kemur lið KV, sem er í öðru sæti deildarinnar, í heimsókn á Krókinn en KV (Knattspyrnufélag Vesturbæjar) er B-lið Íslandsmeistara KR. Það er mikilvægt að ná góðum úrslitum í þeim leik. Áfram Tindastóll!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir