Stólarnir voru jafnvel verri en veðrið!

Tindastóll fékk lið Hauka úr Hafnarfirði í heimsókn á Sauðárkróksvöll í kvöld. Völlurinn var fínn en veðrið frekar hryssingslegt; norðan-kuldaboli. Stólarnir voru nálægt því að næla í stig í síðasta leik og gerðu stuðningsmenn sér vonir um að hægt væri að næla í stig í kvöld. Því fór fjarri því gestirnir úr Hafnarfirði unnu 5-0.

Haukarnir léku undan þéttum vindi í fyrri hálfleik en Tindastólsmenn voru þéttir fyrir og börðust vel. Haukarnir pressuðu með vindinn í bakið en gekk illa að hemja boltann þegar þeir reyndu að stinga inn fyrir vörn Stólanna. Það var nokkur heppnisstimpill yfir fyrsta marki leiksins en þá datt boltinn vel fyrir gestina  sem komust á auðan sjó og skoraði Krickic af miklu öryggi. Eftir þetta komust Stólarnir betur inn í leikinn og reyndu að spila boltanum og gekk ágætlega. Það kom þó ekki á óvart þegar Haukar bættu öðru marki sínu við á 38. mínútu. Staðan í hálfleik 0-2.

Það mátti reikna með því að Stólarnir kæmu dýrvitlausir til leiks í síðari hálfleik og pressuðu gestina. En það var rétt í blábyrjun því leikmenn virtust ekki hafa mikla hugmynd um hvernig best væri að brjóta niður vörn gestanna. Það var hins vegar nokkuð ljóst að endalausar fjörtíu metra sendingar kæmu ekki að gagni – það var enginn að fara ná þeim í þessum vindi. Fljjótlega náðu Haukar yfirhöndinni og síðustu 30 mínútur leiksins gerðu þeir þrjú mörk en hefðu sennilega alveg eins getað gert tíu. Varnarleikur Tindastóls var vandræðalegur og sóknarleikurinn sömuleiðis. José Figura fékk eina góða færi Stólanna í leiknum þegar skammt var eftir en brást bogalistin.

Þetta var ansi kaflaskipt frammistaða í kvöld. Fyrri hálfleikur ágætur en síðari hálfleikurinn hrein hörmung. Það var helst að Blönduósingarnir Kristinn og Benni stæðu upp úr og svo kom Hólmar Skúlason inn á þegar  stundarfjórðungur var eftir og gladdi stuðningsmenn með góðri baráttu.

Fleiri fréttir