Stórtap gegn Grindavík

Meistaraflokkur karla hjá Tindastóli mætti liði Grindavíkur á Grindavíkurvelli í gærkvöldi. Stólarnir byrjuðu leikinn betur en það snerist fljótt við þegar líða tók á leikinn.

Fyrsta mark leiksins kom á 28. mínútu þegar Mark Magee skoraði úr aukaspyrnu rétt fyrir utan teig og kom Stólunum þar með yfir 0-1.

Í seinni hálfleik tóku Grindvíkingar yfir leiknum og skoruðu hvert markið á fætur öðru. Það var þó leikmaður Tindastóls sem jafnaði stöðuna í leiknum þegar hann skoraði sjálfsmark á 47. mínútu. Magnús Björgvinsson kom svo Grindvíkingum yfir fimm mínútum síðar þegar honum tókst að renna boltanum framhjá Gísla Eyland sem stóð vörð um mark Stólanna.

Scott Mckenna Ramsay kom svo Grindvíkingum yfir 3-1 með marki á 63. mínútu. Það stóð þó ekki lengi því Tomislav Misura bætti við fjórða marki Grindvíkinga á 69. mínútu.

Nokkrir leikmenn Tindastóls fengu að líta gula spjaldið í leiknum, Arnar Skúli Atlason fékk gult spjald á 57. mínútu, Rodrigo Morin á 60. mínútu og Benjamín Jóhannes Gunnlaugsson fékk einnig gult spjald á 78. mínútu.

Einn leikmaður Grindavíkur fékk að líta rauða spjaldið í leiknum, en Óli Baldur Bjarnason var rekinn af velli á 83. mínútu. Þrátt fyrir að vera manni færri síðustu mínútur leiksins tókst liði Grindavíkur að bæta við enn öðru marki, en það var Juraj Grizelj sem skoraði síðasta mark leiksins á 89. mínútu. Lokastaða 5-1 fyrir Grindavík.

Tindastólsmenn sitja enn í 12. og neðsta sæti riðilsins með 3. stig eftir 10 leiki. Lið Grindavíkur er í 9. sæti með 11 stig eftir 10 leiki.

Næsti leikur Stólanna er þriðjudaginn 15. júlí, en þá taka strákarnir á móti liði Leiknis R. á Sauðárkróksvelli og hefst leikurinn kl. 20:00.

Fleiri fréttir