Styrkur til jarðhitaleitar í landi Kýrholts

Steinþór Tryggvason bóndi í Kýrholti í Skagafirði var meðal fimm umsækjenda sem fengu úthlutað styrk frá Orkuráði til jarðhitaleitar. Alls fara 25 milljónir í þessi 5 verkefni sem ætlað er að stuðla að enn frekari nýtingu jarðvarma til húshitunar í landinu.

Markmið verkefnisins er að bæta búsetuskilyrði og auka aðgengi að þeim gæðum og möguleikum sem nýting jarðhita hefur í för með sér, draga úr notkun jarðefnaeldsneytis til húshitunar, og jafnframt að draga út kostnaði ríkissjóðs vegna niðurgreiðslu húshitunarkostnaðar. Styrkir eru veittir sveitarfélögum, fyrirtækjum eða einstaklingum.

Auglýst var eftir umsóknum um styrkina í nóvember 2010 og rann umsóknarfrestur út 31. desember. Sautján umsóknir bárust, samtals að upphæð 58,2 m.kr. Orkuráð afgreiddi umsóknirnar á fundi sínum 16. febrúar.

Eftirtaldir fengu 5 milljóna króna styrk hver til jarðhitaleitar:

  • Arnór Heiðar Ragnarsson, til framhaldsleitar í landi Hofsstaða í Reykhólahreppi.
  • Hörgársveit, til leitar í Hörgárdal og Öxnadal í samstarfi við Íslenskar orkurannsóknir og Norðurorku.
  • Jón Svavar Þórðarson, til framhaldsleitar í landi Ölkeldu í Staðarsveit.
  • Orkuveita Staðarsveitar, til framhaldsleitar á Lýsuhóli í Staðarsveit.
  • Steinþór Tryggvason, til lokaáfanga jarðhitaleitar í landi Kýrholts í Viðvíkursveit í Skagafirði.

Búast má við að leit hefjist á þessum stöðum með vorinu.

Skagafjarðarveitur höfðu í október árið 2002 ákveðið að fara í jarðhitaleit í landi Kýrholts í Viðvíkursveit með það að markmiði að finna heitt vatn fyrir Hofsós. Um var að ræða tilraunaverkefni í samvinnu við Orkusjóð, Jarðhita-leitarátak á köldum svæðum og ÍSOR. Árið 2008 ákvað SKV að hætta frekari borunum í Kýrholti vegna ýmissa óhappa og óhagstæðra skilyrða. Rannsóknir gáfu þá til kynna að 55–65°C heitt vatn væri að finna á 1000–1200 m dýpi en var metið svo að það væri ekki nægjanlegur hiti til þess að hitaveituvæða svæðin frá Hofsósi að Svaðastöðum og inn Hjaltadal.

Fleiri fréttir