Sumarið er tíminn – Áskorendapenninn, Sigrún Eva Helgadóttir Reynistað

Sigrún Eva Helgadóttir og Júlíus Helgi Bjarnason.
Sigrún Eva Helgadóttir og Júlíus Helgi Bjarnason.

Nú er farið að líða á sumarið og sumarfríin hægt og rólega að klárast hjá fólki. Lífið fer að komast í fastar skorður aftur eftir leikskólafrí og betri helmingurinn mættur til vinnu aftur. En það var nú nóg um að vera á meðan fríinu stóð. Það ber fyrst að nefna óteljandi sundferðir í Varmahlíð, sem er í sérstöku uppáhaldi hjá börnunum. Útilegur og sumarbústaðaferðir komu þar á eftir, margir sunnudagsbíltúrar og svo bara endalaust brall heima við.

En við fórum í eina sérstaklega eftirminnilega útilegu á tjaldsvæðið á Hömrum við Kjarnaskóg, þangað förum við klárlega aftur! Þarna er sko allt sem hugurinn girnist, risastór skógur með fullt af leiktækjum og skemmtilegt tjaldsvæði með virkilega flottri aðstöðu í alla staði. Þetta er skátasvæði og þar af leiðandi er þarna alls konar skemmtileg afþreying sem maður sér ekki alls staðar. Vatnsrennibraut sem endar ofan í tjörn, þrautabraut í annarri tjörn og svo kajak og hjólabátar í þriðju tjörninni.

Í skóginum er svo fullt af villtum kanínum sem vöktu mikla lukku hjá ungviðinu. Inni í Kjarnaskógi eru svo hvers kyns kastalar, hengibrýr og svona mætti lengi telja. Þarna dvöldum við tvo daga en hefðum gjarnan viljað vera lengur. Fyrri dagurinn var ekkert sérstaklega sólríkur og var hann nýttur í ferð í Sundlaug Akureyrar með tilheyrandi rennibrautafjöri og svo fer maður nú ekki á Akureyri nema að heimsækja Brynjuís. Við vorum einstaklega heppin með veður seinni daginn okkar, það sést enn á undirritaðri þar sem sólarvörnin gleymdist fram að hádegi.

Hitinn sló í 23 gráður með glampandi sól og krakkarnir hlupu um á sundfötunum einum saman og busluðu í vatninu, hvers manns draumur! Ferðinni var svo slúttuð með sjoppufæði á Ak-Inn og ís í eftirmat, svona eins og maður gerir eftir góða útilegu.
 Já sumarfríið var heilt yfir mjög gott og skemmtilegt, bæði fyrir börn og fullorðna. En ég get nú ekki sagt annað en að ég taki fagnandi á móti rútínunni sem fylgir haustinu.

Að lokum vil ég skora á Örnu Ingimundardóttur mágkonu mína að taka við af mér og þakka í leiðinni Þórdísi fyrir þessa áskorun.

@EÍG
Áður birst í 31. tbl. Feykis 2019

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir