Svanni lánatryggingasjóður kvenna auglýsir eftir umsóknum
Svanni lánatryggingasjóður kvenna auglýsir eftir umsóknum fyrir haustið 2014 en umsóknarfrestur er til og með 9. október. Verkefnið er liður í viðleitni stjórnvalda til að efla atvinnulíf og hvetja til nýsköpunar á Íslandi. Ennfremur hafa rannsóknir sýnt að konur eru síður tilbúnar að veðsetja eignir sínar en karlar og hefur það oft staðið verkefnum kvenna fyrir þrifum.
„Vakin er athygli á því að þetta er síðasta úthlutun sjóðsins, en verkefninu lýkur um áramótin, ef eigendur ákveða að framlengja ekki verkefnið en nú stendur yfir endurskoðun á starfsemi sjóðsins,“ segir á vef sjóðsins.
Hægt er að sækja um lánatryggingar vegna lána hjá Landsbankanum, allt frá kl.1.000.000 til 10.000.000. Hægt er að sækja um lán vegna stofnkostnaðar, markaðssetningar, vöruþróunar og vegna nýrra leiða í framleiðslu.
Skila þarf inn umsókn á rafrænan máta, og henni þarf að fylgja viðskiptaáætlun ásamt fjármögnunar- og endurgreiðsluáætlun. Mikilvægt er að umsókn sé vel útfyllt og allar upplýsingar séu greinargóðar og skýrar.
Allar nánari upplýsingar veitir starfsmaður í síma 515-4860 eða í netfangið svanni@svanni.is.