Sveitarfélagið Skagafjörður fær leyfi til að urða riðufé á Skarðsmóum við Sauðárkrók

Örin bendir á gamla urðunarstaðinn á Skarðsmóum sem aflagður var árið 2014.
Örin bendir á gamla urðunarstaðinn á Skarðsmóum sem aflagður var árið 2014.

Í gær var allt fé á Stóru-Ökrum í Blönduhlíð skorið niður vegna riðusmits sem greindist á bænum fyrr í vetur og gekk sú framkvæmd vel eftir plani, að sögn Jóns Kolbeins Jónssonar, héraðsdýralæknis Matvælastofnunar. Allt fullorðið fé auk nokkurra lamba fór í sorpeyðingarstöðina Kölku í Reykjanesbæ en annað sem ekki komst þangað verður urðað á Skarðsmóum við Sauðárkrók.

Á heimasíðu MAST kemur fram að áhrifaríkasta leiðin til að eyða príonum sem valda riðu sé að brenna úrganginn í viðeigandi brennsluofni. Slíkur ofn er til staðar í Kölku Sorpeyðingastöð sf. í Reykjanesbæ en stöðin annar ekki að brenna öllum úrganginum sem um ræðir þar sem einungis er talið að hægt sé að taka á móti 30 tonnum á viku.

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið hefur því veitt Sveitarfélaginu Skagafirði tímabundna undanþágu fyrir notkun urðunarstaðar á Skarðsmóum við Sauðárkrók til að taka á móti og urða allt að 100 tonn af sauðfé úr Tröllaskagahólfi. Þar var áður starfræktur urðunarstaður sem hætti starfsemi árið 2014.

Á grundvelli laga um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim hefur atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, að undangengnum tillögum Matvælastofnunar, fyrirskipað niðurskurð alls fjár á þeim búum sem riðusmit fannst í eða á um 2.500 gripum. Auk fjárins á Stóru-Ökrum hefur niðurskurður einnig verið framkvæmdur á búunum Hofi í Hjaltadal. Að sögn Jóns Kolbeins liggur ekki fyrir hvenær verður farið í niðurskurð á Grænumýri né Syðri-Hofdölum.

Sigurjón Þórðarson, framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Norðurlands vestra, segir vandann fyrst og fremst til kominn vegna þess að verkferlar skuli ekki vera til hjá stjórnvöldum til að takast á við svona mál þar sem ljóst er að hættan á að smit greinist á stórum búum hafi ávallt verið fyrir hendi. Núna hafi tekist að leysa málið með tímabundinni undanþágu en menn munu standa í sömu sporum næst þegar álíka kemur upp.

„Menn þurfa að horfa til framtíðar,“ segir Sigurjón sem telur jafnvel skynsamlegast að leggja eld að hræjunum á urðunarstaðnum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir