Sveitarstjóra afhent áskorun um bætt aðgengi í Bifröst
Aðalheiður Bára Steinsdóttir afhenti sveitarstjóra Svf. Skagafjarðar í ráðhúsinu í gær, þriðjudaginn 1. júlí, skriflega ábendingu um þá brýnu þörf fyrir að laga aðgengi í Félagsheimilinu Bifröst á Sauðárkróki. „Þar fara fram menningarviðburðir sem erfitt er að sækja þar sem ég nota hjólastól, svo sem bíó og leikhús,“ segir Aðalheiður Bára í samtali við Feyki.
Aðalheiður Bára segir Ástu Pálmadóttur sveitarstjóra hafa tekið vel á móti henni og aðstoðarkonu hennar, Oddnýju Rögnu Pálmadóttur.
„ sagði að þetta væri gott innslag í umræðuna um aðgengi í Skagafirði sem hefur verið uppi nú á dögum. Hún þyrfti að setja þetta fyrir nefnd og þetta yrði skoðað strax í haust og þá ákveðið hvað yrði gert. Nokkrar uppástungur hafa komið um bætt aðgengi i Bifröst nú þegar.“
Tillögur Aðalheiðar Báru um bætt aðgengi eru eftirfarandi:
- Kaupa búnað sem „prílar“ upp og niður stiga, eins og til er á héraðsbókasafninu.
- Setja ramp niður að inngangi og stigalyftu innan húss svo hjólastólar komist upp í salinn.
- Setja ramp niður í „Græna sal“ og lyftu þaðan upp á bíósalinn.
- Setja ramp utan á austur hlið hússins, þar sem útgangur úr sal er staðsettur.
Loks benti Aðalheiður Bára sveitarstjóra á rétt hennar samkvæmt lögum og reglugerðum með því að afhenda henni tvær útprentaðar blaðsíður úr samningi Sameinuðu þjóðanna, sem Ísland er aðili að, um réttindi fatlaðs fólks. Þær blaðsíður voru forsíðan og 24. blaðsíða samningsins sem lýsa best aðgengismálum fatlaðs fólks að menningarlegum viðburðum. Í kaflanum um þátttöku í menningarlífi, tómstunda-, frístunda- og íþróttastarfi segir að:
1. Aðildarríkin viðurkenna rétt fatlaðs fólks til þess að taka þátt í menningarlífi til jafns við aðra og skulu gera allar viðeigandi ráðstafanir til þess að tryggja að fatlað fólk:
c) njóti aðgengis að stöðum þar sem menningarefni eða þjónusta á sviði menningar fer fram, t.d. leikhúsum, söfnum, kvikmyndahúsum, bókasöfnum og ferðamannastöðum (Sameinuðu þjóðirnar. 2007. Sótt af vef Innanríkisráðuneytisins).
„Hér sjáum við að hér hefur verið pottur brotinn þar sem aðgengið er ekki nægilega gott,“ segir Aðalheiður Bára að endingu.