Tap gegn Fjölni í gærkvöldi
Meistaraflokkur kvenna hjá Tindastóli tók á móti liði Fjölnis á Sauðárkróksvelli í gærkvöldi í norðanroki og rigningu. Fjölnisstúlkur komust yfir í byrjun leiks þegar Ester Rós Arnarsdóttir skoraði fyrsta mark leiksins á 10. mínútu.
Stólastúlkur héldu hreinu það sem eftir var af fyrri hálfleik en á 58. mínútu bætti Lovísa Mjöll Guðmundsdóttir við öðru marki Fjölnisstúlkna í leiknum og staðan því 0-2. Það var svo Ester Rós sem tryggði Fjölnisstúlkum sigur með sínu öðru marki í leiknum og þriðja marki Fjölnisstúlkna á 78. mínútu. Lokastaða 0-3 fyrir Fjölni.
Tindastólsstúlkur sitja í 6. sæti riðilsins með 15 stig eftir 13 leiki. Fjölnisstúlkur eru í 1. sæti með 33 stig eftir 12 leiki.
Næsti leikur hjá Stólunum er sunnudaginn 17. ágúst, en þá taka stelpurnar á móti Haukum á Sauðárkróksvelli og hefst leikurinn kl. 14:00.