Tap í Vesturbænum í gærkvöldi

Tindastóll náði ekki að leggja KR-inga að velli í gærkvöldi í Iceland Express deildinni þrátt fyrir mjög góða byrjun. Eftir að hafa leitt með 5 stigum í hálfleik, snérist dæmið gjörsamlega við í seinni hálfleik og lokatölur urðu 107 - 88 fyrir KR.

Borce stillti upp óbreyttu byrjunarliði frá leiknum við Hamar, en þeir Sean, Rikki, Helgi Freyr, Kiki og Helgi Rafn hófu leikinn fyrir okkar menn.

Fyrsti leikhlutinn var vel leikinn af hálfu Tindastólsliðsins og komu þeir KR-ingum í opna skjöldu með leik sínum en strákarnir héldu hraðanum vel niðri og átu nánast hverja einustu sekúndu af skotklukklunni. Greinilegt að ekki var ætlunin að hleypa KR-ingum í nein læti. Sóknarleikurinn var skynsamlegur og flestum sóknum slúttað með fínum skotum. Staðan eftir fyrsta leikhluta var 11-24 fyrir Tindastól.

Síðustu mínútur annars leikhluta brugðu KR-ingar á það ráð að klippa Sean hreinlega út úr leiknum með tvídekkningu þannig að hann gat ekki komið upp með boltann. Við þetta riðlaðist leikur okkar manna mikið og KR-ingar gengu á lagið. Staðan var þó þannig í hálfleik að Tindastóll leiddi 37-42.

KR-ingar komu mjög ákveðnir til seinni hálfleiks og fóru þeir Hreggviður og Brynjar Þór hreinlega hamförum og virtust skora að vild. Áður en langt var liðið á leikhlutann voru KR-ingar komnir yfir og eftir gríðarlega stigasveiflu í þriðja leikhluta, eða samtals 21 stig, var staðan við upphaf fjórða leikhluta orðin 74-58. KR-ingar skoruðu 37 gegn 16 stigum Tindastóls í þriðja leikhlutanum einum, eða jafn mikið og í öllum fyrri hálfleik. Bæði Helgi Rafn og Kiki voru þarna komnir með fjórar villur.

KR hóf síðasta leikhlutann 10-2 og til að gera langa sögu stutta, litu þeir aldrei til baka eftir þetta og unnu öruggan sigur 107 - 88 eftir alveg ótrúlega kaflaskiptan leik. Einar Bjarni kom inn á þegar nokkrar mínútur lifðu leiks og gladdi hann augað með góðri baráttu og einum 6 stigum.

Það munaði miklu í þessum leik að Hayward Fain var ólíkur sjálfum sér og náði hann lítið að setja mark sitt á leikinn. Við því mál liðið hreinlega ekki. Einnig lentu stóru mennirnir okkar snemma í villuvandræðum. Þá voru þriggja stiga skotin ekki að detta eðlilega. Hins vegar er ljóst að einbeitingarleysi var í varnarleiknum í þriðja leikhluta, þar sem KR-ingar skoruðu hreinlega að vild og fengu þeir Hreggviður og Brynjar Þór allt of mikið frelsi til að ná skotum á körfuna, sérstaklega fyrir utan þriggja stiga línuna.

Sean Cunningham átti ágætan leik fyrir okkar menn, skoraði 20 stig, tók 8 fráköst og sendi 5 stoðsendingar. Kiki var góður meðan hans naut við, en hann setti 16 stig og tók 8 fráköst. Rikki skoraði 12 stig, Helgi Rafn 8, Helgi Freyr og Hayward 7, Einar Bjarni 6, Hreinsi 5, Tobbi 3 og þeir Halli og Gummi 2 hvor.

Næsti leikur er gegn Fjölni á sunnudaginn eftir viku á gamla góða tímanum kl. 19.15. Verður þar um hörkuleik að ræða sem gott væri að vinna.

www.tindastoll.is

Fleiri fréttir