Þorgeirsboli - Byggðasögumoli

Olíumálverk Jóns Stefánssonar af Þorgeirsbola. Mynd úr Byggðasögu Skagafj.
Olíumálverk Jóns Stefánssonar af Þorgeirsbola. Mynd úr Byggðasögu Skagafj.

Þorgeirsboli kemur fyrir í textum nokkurra jarða í Fellshreppi. Trú á tilvist Bola var almenn á 19. öld og langt fram á þá 20. Má heita einstakt hve margir gátu borið vitni um hann, enda Þorgeirsboli vafalítið frægasti draugur á Íslandi og sagnir af honum skipta tugum ef ekki hundruðum. Því er rétt er að gera nokkra grein fyrir Bola.

Á 18. öld var sá maður uppi í Fnjóskadal sem Þorgeir Stefánsson hét (1716-1802), sagður fæddur á Skógum á Þelamörk, búandi alllengi á Végeirsstöðum og kenndur við þann stað. Það höfðu menn fyrir satt að hann mundi vera ærið göldróttur. Þess er getið að eitt sinn bað hann sér konu en hún vísaði honum frá. Eftir þetta er mælt hann hefi fengið sér flegið kálfshöfuð, sumir segja nautsklauf, og komið þar í hundslöpp. En hvort sem var kvað hann þar yfir galdra og magnaði það svo með fjandans krafti að af því átti að verða draugur sá í nautslíki sem síðan var kallaður Þorgeirsboli. Er svo mælt að hann hafi átt að senda þennan ófagnaðargest konu þeirri er honum synjaði ráðahagsins við sig og hún hafi dáið af þeim sökum.

Eftir þetta þorðu menn ekki að mæla í miðjum hlíðum við Þorgeir því ef ekki var gjört að vild hans var honum tamt að grípa til heitinga. Úr Fnjóskadal flutti hann búferlum að Leifshúsum á Svalbarðsströnd og er þá mælt, að mönnum hafi þótt vaxa reimleiki í héraðinu því Boli fylgdi jafnan Þorgeiri og börnum hans.

Það er haft eftir Þorgeiri á efri árum hans að hann þyrfti að nýja bola sinn upp aftur því hann væri í standi til að verða manns bani. Mun Þorgeir, ásamt Stefáni bróður sínum, hafa magnað upp að nýju þessa óvætt. Það mun hafa gerst þegar þeir bræður voru í Hrísey.

Sagt er að Þorgeir fengi sér kálf nýborinn hjá konu þar í eynni, skar hann síðan þar sem honum þótti hentast, fló hann aftur á malir, sumir segja aftur af mölum, svo hann drægi skinnið allt á halanum, og magnaði hann með fjölkynngi. Samt þótti þeim frændum ekki nóg að gjört heldur létu þeir í benina af átta hlutum, af lofti og af fugli, af manni og af hundi, af ketti og af mús og enn af sjókvikindum tveimur svo níu voru náttúrur Bola með nautseðlinu. Gat hann því jafnt farið loft sem lög og láð og komið fyrir sjónir í öllum þeim myndum sem í honum voru náttúrur og eftir því sem honum þóknaðist. Þó boli væri svo útbúinn sem nú var sagt þótti Þorgeiri ekki ugglaust að hann kynni að verða yfirstiginn. Fékk hann sér því sigurkufl af barni og steypti yfir hann.

Oftast þóttust menn sjá Bola í nautslíki og svo útlítandi sem fleginn væri bæði hausinn og svo allur skrokkurinn. Lafði húðin öll aftur af honum og sýndist holdrosan jafnan snúa út og dróst svo þessi dræsa á eftir honum þar sem hann fór. Stundum þótti mönnum hann vera í kindar- eður kýrlíki með ýmsum litum. Bar þá við að hann væri að bera kálfi eður lambi og komst mjög við í hríðunum og emjaði sárt en færu menn að forvitnast um þetta var allt á sama augnabliki horfið. Stundum sýndist hann sem hundur eða köttur o.s.frv.

Ingunn hét dóttir Galdra-Þorgeirs. Giftist hún Halli Þorkelssyni og bjuggu þau á bæjum á Svalbarðsströnd. Þrjú börn þeirra fluttust til Skagafjarðar: Herdís í Málmey, Þorgeir að Heiði og Jón að Hólkoti í Unadal og Þrastarstöðum. Bjuggu afkomendur þeirra einkum í Fljótum, Sléttuhlíð og Hofshreppi og lét boli mjög að sér kveða í þessum sveitum. Þorgeir Hallsson bjó á Heiði með konu sinni Guðnýju Sturludóttur árin 1830-1842. Þorgeirsboli þótti landlægur á Heiði eftir það. Þorgeir var aflasæll sjómaður, hagur járnsmiður og komst í efni. Dánarbú hans var virt á 1.000 ríkisdali en skuldir aðeins 112 rd. Smiðja hans stóð ofan við gamla bæinn á Heiði, ofan bæjarlækjarins og sá fyrir tóft hennar fram um aldamótin 1900.

Reimt þótti í smiðjunni og við hana lengi eftir að Þorgeir lést 3. janúar 1842. Orðrómur var að Þorgeirsboli hefði að lokum ráðist á Þorgeir í smiðjunni og þjarmað svo að honum að hann lést samdægurs. Í kirkjubókina skráir prestur að Þorgeir „deyði af innvortis meinsemd.“ Algengt var ef skepnur misfórust að Bola væri kennt um. Eitt sinn fannst kviðrifin kind með iðrin úti norðan við smiðju Þorgeirs. Var það talið af völdum Bola. Í annað skipti hrapaði hross fram af sjávarbökkunum neðan Heiðar og var Bola sömuleiðis kennt um það slys. Draugur þessi varð að ættarfylgju og sagt var að hann fylgdi sterklega Jóhanni á Keldum, syni Þorgeirs, og mörgum fleiri afkomendum. Jóhann sturlaðist að lokum og fórst af þeim orsökum eins og lesa má í Keldnatexta. Flestar og ítarlegastar sagnir af Þorgeirsbola er að finna í þjóðsagnasafninu Gráskinnu hinni meiri II, bls. 285-339.

/Byggðasaga Skagafjarðar 8. bindi bls. 223.

Áður birst í 29. tbl. Feykis 2019.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir