Þríhleypan lögst á hilluna

Helgi Freyr Margeirsson ásamt sínum al dyggustu stuðningsmönnum með Maltbikarinn góða. MYND: HJALTI ÁRNA
Helgi Freyr Margeirsson ásamt sínum al dyggustu stuðningsmönnum með Maltbikarinn góða. MYND: HJALTI ÁRNA

Í frétt á Facebook-síðu Körfuknattleiksdeildar Tindastóls nú í vikunni var sagt frá því að reynsluboltinn og þríhleypan Helgi Freyr Margeirsson hafi ákveðið að leggja skóna á hilluna eftir 22 ára þjónustu sem meistaraflokksmaður – lengstum með liði Tindastóls. Fyrsta leikinn fyrir Stólana lék kappinn 14 ára gamall tímabilið 1996-1997 og því mögulega kominn tími til að kæla skothöndina.

Í fréttinni segir m.a.: „Helgi hefur verið lykil-leikmaður í uppgangi Tindastóls síðan hann kom aftur [2009] bæði innan vallar sem utan. Frábær liðsfélagi sem var til í aðstoða liðið eða liðsfélaga á hvaða hátt sem þurfti. Það sýndi sig mjög vel til dæmis þegar ungt og óreynt lið Tindastóls fór alla leið í úrslit árið 2015. En eftir 22 ára feril sem meistaraflokksleikmaður eru skórnir komnir upp í hillu.

Körfuknattleiksdeild Tindastóls vill koma miklum þökkum til Helga Freys og hans fjölskyldu fyrir hans framlag til Tindastóls í gegnum þessi 22 ár, en án heimamanna sem eru tilbúnir að leggja sig alla fram fyrir klúbbinn er ekki hægt að ná þeim árangri sem Tindastólsliðið hefur náð síðustu ár.“

Helgi Freyr svaraði fyrir sig á Facebook og sagði m.a.: „Ég vil fá að nýta þetta tækifæri og segja takk fyrir mig Körfuknattleiksdeild Tindastóls og allt það frábæra fólk sem ég hef kynnst og fengið að vinna/spila með í gegnum tíðina. Körfuboltinn hefur gefið mér svo margt, mótað persónu mína og opnað ótal dyr í gegnum tíðina. Í kringum körfuboltann eignast vini út um allan heim fyrir lífstíð og fyrir það verð ég ævinlega þakklátur. Það er svo langt í frá sjálfgefið og í raun ómetanlegt að hafa haft tækifæri til að stunda íþróttina sem maður elskar á jafn háu getustigi og býðst hér á Sauðárkróki, höfuðstað Norðurlands...“

Það er næsta víst að margur stuðningsmaður Tindastóls á eftir að sakna þess að sjá Helga gera klárt í nokkrar langfleygar utan úr bæ. Feykir þakkar Helga fyrir fjölmargar ógleymanlegar minningar úr Síkinu og víðar. Takk Helgi!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir