Þrjár og hálf milljón í tækjakaup Gránu Bistro

„Aðkeypt önnur vinna“ er langstærsti útgjaldaliður vegna framkvæmda við byggingar við Aðalgötu 21 á Sauðárkróki alls 188.917.412,30 kr. af þeim tæpu 318 milljónum sem verkið hefur kostað til þessa. „Önnur vörukaup“ hljóðuðu upp á 69.252.845,22 og er þar með næst stærsti liður útgjaldanna. Þetta kemur fram í svörum byggðarráðs Svf. Skagafjarðar til Álfhildar Leifsdóttur, VG og óháðra, sem lagði fram fyrirspurn í tíu liðum er varðaði lagfæringar á húsnæði við Aðalgötu 21 og rekstri sýndarveruleikaseturs 1238.
„Það er mikilvægt að upplýsingar um aðkomu sveitarfélagsins að svona stórum og fjárfrekum verkefnum liggi fyrir á hverjum tíma. Eftir á þó að gera upp verkið í heild sinni þegar því er lokið en ljóst er að verkið hefur verið vanáætlað frá upphafi og verið sveitarfélaginu mjög kostnaðarsamt, með þeim afleiðingum að önnur nauðsynleg verk sem hafa beðið framkvæmda á sama tíma,“ segir í bókun Álfhildar.
Hver kostnaður sveitarfélagsins væri vegna eldunaraðstöðu í Gránu Bistro, veitingastaðar í sýndarveruleikasetrinu, kemur fram í svörunum að honum mætti skipta í tvennt, annars vegar tæki upp á kr. 3.485.744 og aðstöðunnar sjálfrar, rúmar átta milljónir króna, miðað við hlutfall fermetrafjölda hússins í heild.
Ein spurning Álfhildar snýr að því hvort komi til greina að Byggðarsafnið fái aðstöðu á Aðalgötu 21-21a ef rekstrarhagnaður Sýndarveruleika ehf. verði ekki í samræmi við áætlanir. Í svarinu er ekkert útilokað en er undir stjórn eignasjóðs og sveitarstjórn komið hvað verði gert við húsnæðið fari illa hjá 1238.
„Ef rekstur Sýndarveruleika ehf. verður með neikvæðum hætti sem leiðir til þess að félagið hætti starfsemi, þá falla skuldbindingar Sveitarfélagsins Skagafjarðar gagnvart félaginu niður og þá er sveitarfélaginu heimilt að nýta húsnæðið undir aðra starfsemi.“
Ólafur Bjarni Haraldsson, Byggðalistanum, lét bóka að framkvæmdirnar við endurbætur húsanna hafa farið allt of langt fram úr þeim áætlunum sem farið var af stað með í upphafi. „Menn hljóta að spyrja sig að því hvort réttar ákvarðanir hafi verið teknar í upphafi og hvað lá þeim ákvörðunum til grundvallar.“
Í bókun fulltrúa meirihluta byggðarráðs segir m.a. að meirihluti sveitarstjórnar telji það farsælt skref að hafa ráðist í endurbætur og lagfæringu húsanna og stuðla þar með að því að þar byggðist upp lifandi starfsemi sem vekti áhuga og eftirtekt og laði að gesti sem ferðist víða um Skagafjörð til að skoða allt það fjölmarga sem héraðið hafi upp á að bjóða.
Spurningar Álfhildar og svör við þeim eru birt á heimasíðu Sveitarfélagsins Skagafjarðar undir stjórnsýsla - ýmsar skýrslur. Sjá HÉR
Tengd frétt: Framkvæmdakostnaður við Aðalgötu 21a og 21b á Sauðárkróki stefnir í 324 milljónir
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.