Þrjú á þremur mínútum hjá Þrótti
Tindastóll spilaði við lið Þróttar Reykjavík á Valbjarnarvellinum í dag. Ekki tókst strákunum að næla í stig og fóru leikar þannig að heimamenn gerðu fjögur mörk en Stólarnir ekkert.
Tindastólsmenn náðu að halda markinu hreinu í fyrri hálfleik en eitthvað hefur tesopinn í hálfleik farið öfugt ofan í menn – eða svona rosalega vel í Þróttara – því áður en fimm mínútur voru liðnar af síðari hálfleik var staðan orðin 3-0. Það var gamla markamaskínan Björgúlfur Takefusa sem gerði fyrsta markið á 47. mínútu, Matthew Eliasson bætti öðru við mínútu síðar og loks leið aðeins mínúta þar til Björgólfur hafði bætt við þriðja merkinu. Þrjú mörk á þremur mínútum. Oddur Björnsson bætti við fjórða markinu þegar um 10 mínútur voru eftir og lokatölur 4-0.
Stólarnir eru því sem fyrr með þrjú stig á botni 1. deildar en næsti leikur liðsins er hér heima næstkomandi laugardag en þá kemur lið HK í heimsókn. Kópverjar eru sem stendur í fimmta sæti deildarinnar og eiga ekki möguleika á að komast í efstu deild.