Tindastóll selur inn á draugaleiki

Að öllu eðlilegu væri úrslitakeppni Dominos deildarinnar í körfubolta í hámarki þessa dagana og félögin að fá tekjur inn í reksturinn sem þeim eru mikilvægar svo allt gangi eins og á að gera. En vegna Covid 19 verður tímabilið 2019/2020 ekki klárað og því enginn úrslitakeppni en fólk getur samt lagt sitt af mörkum og keypt sig inn á draugaleiki.

Inni á Facebooksíðu körfuboltadeildar Tindastóls er fólki bent á að hægt er að styrkja deildina með því að leggja inn á reikning eða gerast vildarvinur, en eins og máltækið segir gerir margt smátt eitt stórt. Karlaliðið endaði í 3. sæti Dominos deildar karla og 5. sæti í 1. deild kvenna sem er ásættanlegur árangur í deild. „En að verða af úrslitakeppninni eru mikil vonbrigði og ekki hægt að leyna því að þetta er fjárhagslegt högg fyrir deildina, þar sem úrslitakeppnin hefur verið ein af okkar stærstu tekjulindum ár hvert,“ segir í færslu stjórnar.

Í samtali við Björn Hansen segir hann þetta snúast um það að fá fólk til að hjálpa til. „Eins og allir vita misstum við stærstu tekjulindina okkar út, sem er úrslitakeppnin, og þess vegna erum við með styrktarreikning sem fólk getur lagt inn á ef það telur sig fært um að geta það. Hann hefur verið í gangi síðan á fimmtudag í síðustu viku og undirtektirnar eru góðar,“ segir Björn.

Hann segir hugmyndina þannig að fólki er gefið tækifæri á að kaupa sig inn á leiki sem ekki fara fram líkt og gert er hjá Stjörnunni og KR.

„Það er ekkert að brenna hjá okkur þannig lagað en við verðum náttúrulega að draga saman seglin,“ segir Björn. Tindastóll átti aðeins eftir að leika einn leik þegar Íslandsmótið var blásið af og, útileik gegn Grindavík sem sátu í 8. sæti. Ómögulegt er að segja hvað lið hefðu endað saman ef síðasta umferð hefði farið fram, þar sem mjótt er á munum í stigasöfnun vetrarins. En eins og þetta endaði væru Stólar að leika í úrslitakeppninni gegn Israel Martin og og hans liðsmönnum í Haukum, sem enduðu í 6. sætinu.

Þeir sem vilja leggja málefninu lið geta greitt inn á reikning númer

161-26-6030
kt: 690390-1169.

Misjafnt er hvað fólk er að leggja inn á reikninginn að sögn Björns en einhverjir hafa sett 10 þúsund inn, sumir meira og aðrir minna.

Þá segir Björn vildarvinina mjög mikilvæga og hjálpi deildinni mikið þar sem tikkar inn á reikninginn allt árið. 
„Okkur hefur tekist að reka deildina á núlli en við þurfum alltaf að undirbúa okkur fyrir næsta tímabil. Við þurfum alltaf að starta á haustin og byrja að afla tekna þar sem við þurfum að borga flug fyrir leikmenn og fyrirfram í húsaleigu og fleira í þeim dúr. Við þurfum alltaf pening í startið,“ segir hann. Þeir sem vilja gerast vildarvinir geta sett framvirkar greiðslur inn á reikning 161-26-6025 og kennitalan sú sama og fyrr er getið.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir