Tíu marka tryllir þegar Djúpmenn lögðu Tindastól

Áhorfendur á Sauðárkróksvelli fengu að líta markaveislu þegar Tindastóll og BÍ/Bolungarvík mættust í 1. deildinni í dag. Staðan í hálfleik var 1-3 en þegar upp var staðið sigruðu gestirnir 4-6 þrátt fyrir góða baráttu heimamanna.

Það voru ljómandi aðstæður á Króknum, nánast stylla en rigningarúði sem jókst eftir því sem á leikinn leið. Það voru varla liðnar tvær mínútur þegar BíB komst yfir eftir að Fannar Freyr tapaði boltanum við miðlínu. Boltanum var spilað út á hægri kant, þéttingsfastur bolti fyrir markið og búmm – Orlando Bayona, einn af sex erlendum leikmönnum gestanna, hamraði boltann í markið. Þegar 10 mínútur voru liðnar þurftu bæði Fannar Freyr og Kári Eiríks að yfirgefa völlinn vegna meiðsla og inn komu Bjarni Smári og Konni Sigga Donna. Gestirnir voru mun grimmari til að byrja með, bæði stærri og sterkari og Stólarnir voru í vandræðum. Annað mark leiksins gerði Björgvin Stefánsson á 23. mínútu og fór nú um heimamenn en Stólarnir komust óvænt inn í leikinn aftur tveimur mínútum síðar þegar Morin rændi boltanum af aftasta varnarmanni og afgreiddi hann laglega í markið. Eftir þetta var allur annar bragur á liði heimamanna sem sýndi í kjölfarið ágætt spil og liðið skapaði sér nokkur sæmileg færi eftir laglegar sóknir. Það var því nokkuð þungt högg þegar Stólarnir gerðu sjálfsmark eftir hornspyrnu gestanna rétt fyrir hálfleik.

Heimamenn komu ákveðnir til leiks í síðari hálfleik og nú hafði bætti í rigninguna. Hún hafði sitt að segja þegar Stólarnir minnkuðu muninn á 55. mínútu en þá slapp Mark Magee inn fyrir vörn gestanna eftir kómískan varnarleik. Hann fór fram hjá Saunders í markinu og setti boltann af öryggi í netið. Það tók BÍB aðeins tvær mínútur að auka forskotið en þá klikkaði einbeitingin hjá leikmönnum Tindastóls eftir aukaspyrnu gestanna og Björgvin skoraði annað mark sitt í leiknum. Stólarnir gáfust ekki upp og reyndu að sækja að marki gestanna og uppskáru mark á 73. mínútu þegar Benni skrúfaði boltann laglega í fjærhornið eftir hamagang við vítateig BÍB. Enn voru gestirnir fljótir að svara og gerði Aaron Spear laglegt mark á 77. mínútu og staðan 3-5. Stuttu síðar meiddist Konni illa eftir að hafa lent í harkalegu samstuði við köggulinn Nigel Quashie sem fór í óþarfa tæklingu. Quashie lét skammirnar dynja á stráknum um leið og hann rauk draugfúll í burtu. Gísli markvörður lét ekki bjóða sínum mönnum svona framkomu og gekk fram að miðju til Quashie og átti við hann nokkur orð og endaði með því að Bretinn baðst afsökunar. Slakur dómari leiksins gerði engar athugasemdir við þetta ruddabrot frekar en annan tuddaskap leikmannsins í leiknum. Konni var borinn sárþjáður af velli og þar sem Bjarki þjálfari var nýkominn inn á þá voru Stólarnir búnir með skiptingarnar. Nú spiluðu menn með hjartanu og héldu áfram að sækja og á 90. mínútu gaf Bjarki sínum mönnum von þegar hann skoraði með flottum skalla eftir fyrirgjöf Benna. Staðan 4-5 og nú hentu Tindastólsmenn öllum fram og pressuðu af miklum móð. Í uppbótartíma vörðu gestirnir á línu en þeir náðu skyndisókn á 94. mínútu, komust fjórir á tvo þrátt fyrir rangstöðufnyk og skoruðu af öryggi sjötta mark sitt í leiknum. Lokatölur 4-6.

Leikurinn í dag var ágæt skemmtun og allt annar bragur á leikmönnum Tindastóls en gegn Leikni fyrr í vikunni. Því miður eru of miklar brotalamir í leik liðsins sem stendur, talsverð meiðsli lykilmanna taka sinn toll og þunnskipaður hópurinn má ekki við miklu. Stuðningsmenn liðsins eru hinsvegar sáttir þegar þeir sjá leikmenn gefa allt og það var enginn skortur á því í dag. Áfram Tindastóll!

Fleiri fréttir