Undirfellsrétt seinkaði um tvo daga

Karl Gústaf Davíðsson, gangnamaður á Grímstunguheiði, leggur af stað ríðandi frá Öldumóðuskála sl. föstudagsmorgun. Mynd: Holger Páll Sæmundsson.
Karl Gústaf Davíðsson, gangnamaður á Grímstunguheiði, leggur af stað ríðandi frá Öldumóðuskála sl. föstudagsmorgun. Mynd: Holger Páll Sæmundsson.

Um síðustu helgi fóru fyrstu göngur og réttarstörf víða fram á landinu í misgóðu veðri. Fyrri part sunnudags var veðrið til friðs en eftir hádegi fór að rigna víðast hvar á Norðurlandi. Laugardagurinn skartaði hins vegar sínu fegursta og fengu þau sem gengu þann daginn, og drógu sitt fé, kjörið veður til þeirra verka.

En smölun á heiðum hálendisins tekur heldur lengri tíma en þær sem fram fara á fjöllum nær byggð og þannig fóru smalar á Grímstunguheiðina snemma morguns þriðjudaginn 1. september og gekk smölun framar vonum fyrsta daginn.

„Í kjölfarið fór þó veður að gera þeim erfitt fyrir. Á degi tvö gerði svo mikla þoku að þeir máttu hafa sig alla við að tapa ekki áttum og komast heilir heim í skála. Þá var veðurspáin fyrir komandi sólarhring orðin með þeim hætti að ákveðið var í öryggisskyni að keyra þeim af heiðinni á meðan veðrið gengi yfir,“ segir Holger Páll Sæmundsson, sá er tók meðfylgjandi mynd. Hann er bróðir Péturs Snæs Sæmundssonar, bónda í Brekkukoti, en fjölskylda hans er sauðfjárbændur sem reka sitt fé á Grímstunguheiði. Þegar gangnamönnum var ekið aftur á heiðina á föstudagsmorgni fylgdi Holger með til að aðstoða bróður sinn, og þá gangnamenn sem honum fylgja, við að koma sér af stað og keyra bílinn til baka.

„Ég greip myndavélina með, því aðstæður voru með þeim hætti að ég taldi víst að gaman yrði að eiga heimild um þessar göngur seinna meir,“ segir hann aðspurður um myndina en þar sést hvar Karl Gústaf Davíðsson, gullsmiður og gull af manni, leggur af stað ríðandi frá Öldumóðuskála þennan morgun. „Mér þykir myndin lýsa aðstæðum ansi vel. Það var hvasst og það snjóaði, heiðin var að stórum hluta orðin alhvít og aðstæður til sauðfjárleitar því með versta móti. En sem betur fer rættist úr veðrinu eftir því sem leið á daginn og féð var komið af heiðinni um kvöldmatarleytið á laugardag. Vanalega er féð af Grímstunguheiði réttað í Undirfellsrétt á föstudegi, en veðráttan þetta árið varð til þess að réttum þurfti að fresta fram á sunnudag.“

Ljósmyndun er áhugamál hjá Holger og hafi fólk áhuga á að sjá fleiri myndir eftir hann má finna þær á Instagram síðu hans @hollogram_.

Fleiri fréttir