Uppskriftir stríðsáranna - öðruvísi matreiðslubók

Út er komin hjá bókaforlaginu Espólín bókin Uppskriftir stríðsáranna  sem er forvitnileg uppskriftabók þar sem leitað er í handskrifaðar matreiðslubækur systranna Sigurlaugar (f. 1924) og Guðbjargar (f. 1919, d. 2013) Sveinsdætra frá Tjörn á Skaga sem stunduðu báðar nám við Kvennaskólann á Blönduósi á stríðsárunum. Höfundar eru Anna Dóra Antonsdóttir sem er dóttir Sigurlaugar, og Kristrún Guðmundsdóttir.

Á heimasíðu forlagsins segir að Uppskriftir stríðsáranna sé „öðruvísi matreiðslubók þar sem finna má íslenskar, einfaldar, ódýrar gamlar og umfram allt góðar uppskriftir, sem voru allsráðandi í eldhúsum landsins eftir stríð, en þú hefur samt örugglega aldrei heyrt talað um."

Uppskriftirnar eru, sem fyrr segir, sóttar í smiðju systranna Sigurlaugar og Guðbjargar Sveinsdætra og handskrifaðar matreiðslubækur þeirra. Uppskriftunum frá Blönduósi er fylgt úr hlaði af höfundum með textum dagsins, m.a. um það sem efst er á baugi í samtímanum eða hjá höfundum, rifjaðir upp þættir úr sögu kvennafræðslu og saga réttanna. Á bókarkápu segir að vegurinn frá eldhúsi Kvennaskólans á Blönduósi á tímum síðara heimsstríðs til nútímaveitingahúss sé býsna langur en þó sé einhver samhljómur, einn og sami strengurinn, sem gangi gegnum allt ferlið. 

Bókaútgáfan Espólín forlag var stofnuð á síðasta ári af þeim Önnu Dóru Antonsdóttur og syni hennar, Teiti Má Sveinssyni, en Anna Dóra rak áður Adan bókaútgáfa og gaf þar út bækur sínar. Anna Dóra var búsett á Frostastöðum í Skagafirði um 20 ára skeið og stundaði búskap en að öðru leyti hefur kennsla og kennsluráðgjöf verið hennar ævistarf, auk ritstarfanna en hún hefur gefið út nokkrar bækur um sögulegt efni auk barnabóka og smásagnasafns. Espólín, nafnið á forlaginu, hefur beina tengingu til Frostastaða en það er kennt við sýslumanninn Jón Espólín sem bjó á Frostastöðum síðustu ár ævinnar. 

Þetta er önnur bók Önnu Dóru á árinu en bókin Þar sem skömmin skellur - Skárastaðamál í dómabókum kom út í vor. Sagan gerist í Miðfirði upp úr miðri 19. öldinni og fjallar um sakamál sem kennt hefur verið við bæinn Skárastaði í Austurárdal. Bókin byggir á dómabókum og fleiri samtímaskjölum en þar sem gögnum sleppir tekur höfundurinn við og fyllir upp í eyðurnar, eins og segir á heimasíðu forlagsins. Sjá frétt á Feyki.is Anna Dóra Antonsdóttir skrifar um Skárastaðamál.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir