Úttekt Menntamálastofnunar á skólastarfi í Grunnskólanum austan Vatna
Sagt er frá því á vef Sveitarfélagsins Skagafjarðar að ný og endurskoðuð matsviðmið hafi verið tekin í notkun við ytra mat á grunnskólum á vegum Menntamálastofnunar. Grunnskólinn austan Vatna var í hópi fyrstu grunnskólanna sem fóru í úttekt með nýju matsaðferðinni í september síðastliðnum en tíu grunnskólar eru metnir árlega.
Á vef Menntamálastofnunar segir að í ytra mati felist að matsaðilar Menntamálastofnunar leggi mat á starfsemi viðkomandi skóla með hliðsjón af gildandi viðmiðum sem meðal annars byggja á lögum, reglugerðum og aðalnámskrám. Sé það gert með skoðun á fyrirliggjandi gögnum um starfsemi skólans, vettvangsheimsóknum matsaðila og viðtölum við börn/nemendur, starfsfólk skóla og foreldra.
Í úttektinni var lagt mat á þrjá þætti skólastarfs þ.e. stjórnun og faglega forystu, nám og kennslu og innra mat. Þessum þremur lykilþáttum var svo skipt niður í 16 undirkafla. Í fimm þáttum fær skólinn eftirfarandi umsögn: Mjög gott verklag sem samræmist fyllilega lýsingu um gæðastarf. Flestir eða allir þættir sterkir. Í ellefu þáttum fær skólinn umsögnina: Gott verklag, margir þættir í samræmi við lýsingu á gæðastarfi en möguleikar á umbótum. Meiri styrkleikar en veikleikar.
Í kjölfar úttektarinnar var unnin umbótaáætlun frá skóla og sveitarfélagi um ákveðna þætti skólastarfsins og hefur Menntamálastofnun yfirfarið hana og telur að hún uppfylli með fullnægjandi hætti viðbrögð við þeim þáttum sem matsaðilar bentu á sem tækifæri til umbóta í skólastarfi Grunnskólans austan Vatna, að því er segir á vef sveitarfélagsins. Niðurstöður matsins og áætlun um umbætur munu birtast á vef Menntamálastofnunar innan tíðar en þær má finna á vef Grunnskólans austan Vatna.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.