Vakning í frjálsum í Húnaþingi vestra

Vefurinn Norðanátt sagði frá því fyrr í vikunni að mikil aukning væri í iðkun frjálsíþrótta meðal grunnskólabarna í Húnaþingi vestra. Höfðu æfingar legið niðri um tíma vegna dræmrar þátttöku, en þráðurinn var tekinn upp að nýju á haustdögum þegar Guðmundur Hólmar Jónsson flutti á staðinn og tók við þjálfarastarfi í frjálsum íþróttum hjá UMF Kormáki.

Guðmundur Hólmar hefur sjálfur bakgrunn í frjálsum íþróttum og keppti lengi vel í spjótkasti. Þá hefur hann einnig reynslu í þjálfun í frjálsum íþróttum, en hann byrjaði að þjálfa frjálsar íþróttir fyrir þrettán árum. Hann hefur m.a. þjálfað Helgu Margréti Þorsteinsdóttur sjöþrautarkonu sem náði feikna góðum árangri og var meðal þeirra fremstu í greininni í Evrópu. Guðmundur segir frjálsar íþróttir vera áhugamál hjá honum og að hann æfi núna sér til gamans. "Kannski keppi ég næsta sumar ef ég verð í þokkalegu formi", sagði Guðmundur, í samtali við Norðanátt.

Guðmundur segist hafa verið að velta því fyrir sér að taka sér frí frá frjálsíþróttaþjálfun en svo hafði Valdimar Gunnlaugsson, framkvæmdastjóri Umf. Kormáks, samband við Guðmund og hann ákvað að slá til. Guðmundur segist hafa metnað fyrir því að efla frjálsíþróttamenninguna hér á svæðinu og færa hana nær því sem hún var hér á árum áður.

Í dag eru milli 15 til 25 krakkar sem mæta á æfingarnar. Framundan segir Guðmundur vera góðar æfingar fram að áramótum og jafnvel æfingabúðir í frjálsíþróttahöll á höfuðborgarsvæðinu. Stefnan sé svo sett á keppnismót í janúar, febrúar og mars á næsta ári. Þau muni svo reyna að mæta með sterkt lið 7-10 keppenda á Meistaramót Íslands og Landsmót UMFÍ sumarið 2015.

Fleiri fréttir