Varði titilinn og jafnaði Íslandsmet sitt
Snjólaug M. Jónsdóttir frá Skotfélaginu Markviss varði bikarmeistaratitil sinn í kvennaflokki á Bikarmóti STÍ sem fór fram á Akureyri um helgina. Þá jafnaði hún einnig Íslandsmet sitt sem hún setti á Landsmóti STÍ á Húsavík í ágúst síðastliðnum.
Bikarmótið var síðasta mót sumarsins og er keppnistímabilinu í leirdúfuskotfimi því lokið. Á vef Húna.is kemur fram að mótið hafi upphaflega átt að fara fram á Blönduósi en var fært til Suðurnesja að ósk Skotdeildar Keflavíkur.
„Þeir hinsvegar gáfu mótið frá sér á síðustu stundu og var dregið milli fjögurra skotfélaga um hvort þeirra fengi að halda mótið að þessu sinni. Skotfélag Akureyrar hreppti hnossið og fór mótið fram í blíðskaparveðri á svæði Akureyringa í gær eins og fyrr sagði,“ segir á vefnum.
Fyrir mótið var Snjólaug efst að stigum til bikarmeistara í kvennaflokki og varð fljótt ljóst að hún myndi verja titilinn í kvennakeppninni. „Hún skaut jafnt og vel allt mótið og jafnaði Íslandsmet sitt sem hún setti á Landsmóti STÍ á Húsavík fyrr í sumar og vann kvennaflokkinn með yfirburðum,“ segir á Húna.is.
Röð stigahæstu skotmanna landsins 2014 varð sem hér segir.
Karlaflokkur:
1.Örn Valdimarsson SR 58 stig
2.Sigurður Jón Sigurðsson SIH 53 stig
3.Grétar Mar Axelsson SA 52 stig
4.Guðmann Jónasson MAV 50 stig
5.Kjartan Örn Kjartansson SR 49 stig
Kvennaflokkur:
1.Snjólaug María Jónsdóttir MAV 60 stig
2.Dagný Huld Hinriksdóttir SR 57 stig
3.Helga Jóhannsdóttir SIH 57 stig
4.Eva Skaftadóttir SR 38 stig
5.Lisa Óskarsdóttir SR 38 stig