Veður sæinn röðull rótt - Úrslit í Vísnakeppni 2019
Úrslit í vísnakeppni Safnahúss Skagfirðinga voru kunngjörð á setningarhátíð Sæluviku Skagfirðinga sl. sunnudag en þeirri keppni var komið á árið 1976 og því komið að þeirri 44. Reglurnar eru líkt og áður einfaldar og góðar; annars vegar að botna fyrirfram gefna fyrriparta og eða semja vísu um ákveðið málefni sem að þessu sinni var Skagafjörður.
Fyrripartasmiðirnir voru líkt og fyrri ár, Fljótamennirnir Hreinn Guðvarðarson og Haraldur Smári Haraldsson og vil ég þakka þeim kærlega fyrir það góða viðvik. Fyrri partarnir koma úr öllum áttum að þessu sinni en sjá má kunnuglegt stef í þeim. Júróvisíon, vorið, stórafmæli KS og kannski smá Sæluvikustemning. Hreinn kom með þessa parta:
Sigri hatrið, held ég að
heimurinn muni farast.
Vorið nálgast, vinda lægir
vermir sólin dal og grund.
Og þessa fyrri parta kom Smári með:
Þriðji tugur yfir öld
árin KS telja.
Léttur í spori leik ég mér
lausgyrtur að vanda.
Svo í restina fengu vísnavinir að spreyta sig á þessum fyrri parti Hreins:
Kveða skulum kostabrag,
komdu með seinnipartinn.
Þátttaka var jafngóð og í fyrra þar sem 17 einstaklingar sendu inn efni og er það skoðun undirritaðs að innsendir botnar og vísur hafi verið yfir heildina mjög góðir þetta árið. Hér má sjá samtíning úr því sem barst af botnum og vísum. Best er að afgreiða hatrið strax.
Sigri hatrið, held ég að
heimurinn muni farast.
lít ég að einmitt það
eigi mest að varast!
Þar var á ferðinni botn Sleggjubrands en á bak við það dulnefni er Rúnar Kristjánsson á Skagaströnd.
Sigri hatrið, held ég að
heimurinn muni farast.
og Nostradamus botnar með válegum fyrirboða líkt og nafni hans forðum:
Þjóð mun brytja þjóð í spað
og þrætur enginn varast.
Þar var á ferðinni Helgi Ingólfsson í Reykjavík.
Bullustampur rekur hér endahnút á hatrið með stæl.
Sigri hatrið, held ég að
heimurinn muni farast.
Kannski betra kanna það,
kála sér nú snarast.
Bullustampur reyndist vera Magnús Guðmundsson á Akureyri.
Daginn eftir setningu Sæluvikunnar, þar sem úrslit vísnakeppninnar voru kynnt, barst eitt bréf í viðbót en það hafði það verið póstlagt á Króknum 23. apríl. Það tók sem sagt viku að koma því til skila. Ein vísa úr bréfinu fær að fljóta með en þar er Karl Lúðvíksson í Varmahlíð með umsögn um hatrið. Dulnefni Karls var Hnoðmör.
Sigri hatrið, held ég að
heimurinn muni farast.
Segja má nú sitt og hvað
en sigur ber að varast.
Aðalfundur Kaupfélagsins var haldinn sl. laugardag og nýlega fagnaði félagið 130 ára afmæli sínu. Óhætt er að segja að vel gangi hjá okkar ágæta félagi eins og Dagfari segir hér:
Þriðji tugur yfir öld
árin KS telja.
Þá er gleðin væn við völd
vaskleiki og elja.
Bak við Dagfara stendur Pétur Stefánsson, Slétthlíðingur sem býr í Reykjavík.
Skín við Sólu-Hjálmar var ekki eins bjartur í sinni.
Þriðji tugur yfir öld
árin KS telja.
Og norðangjólan nístingsköld
nú mun okkur kvelja.
Skín við Sólu-Hjálmar reyndist vera Þórólfur Stefánsson Króksari sem býr í Svíþjóð.
Svivaseinn haslar sér inn á völlinn og segir:
Þriðji tugur yfir öld
árin KS telja.
Þórólfur með þrek og völd
þorir rétt að velja.
Þá má telja líklegt að átt sé við Þórólf Gíslason. Reynir Hjörleifsson frá Kimbastöðum var hér að verki.
Þar sem mjólkursamlagið hefur stækkað gríðarlega hjá KS undanfarin ár þarf að tuttla blessaðar kýrnar af krafti svo afköstin standist væntingar að mati Hegra sem segir:
Þriðji tugur yfir öld
árin KS telja.
Leggur í púkkið lítrafjöld
lasin gömul belja.
Þarna var Selfyssingurinn Sigurjón V. Jónsson að verki. Og þá eru kýrnar ekki síður mikilvægar í annarri framleiðslu sem KS stefnir að eins og Stelkur, sem Eyþór Árnason frá Uppsölum stendur að baki talar um hér:
Þriðji tugur yfir öld
árin KS telja.
Elsku kýrnar öll þín kvöld
etanólið selja.
Kveða skulum kostabrag,
komdu með seinnipartinn.
Á Sæluviku seinna í dag
sjálfsagt kemur margt inn.
Þarna er Nostradamus enn á ferðinni með feikna góðan spádóm því uppselt var á leikrit Leikfélagsins um kvöldið.
Gustur segir:
Kveða skulum kostabrag,
komdu með seinnipartinn.
Gleði eykur glæðir hag
göfug ljóða artin.
Ingólfur Ómar Ármannsson var með dulnefnið Gustur. Vestangjólan var ekkert að pukrast með það að varla væri tíma eyðandi að botna þennan fyrripart.
Kveða skulum kostabrag,
komdu með seinnipartinn.
Mér hentugast finnst það háttarlag
að hafa hér engan botninn.
Vestangjólan kom alla leið frá Þingeyri þar sem Bergur Torfason á heima.
Nú skulum við létta sporið og tökum undir með Hrasa:
Léttur í spori leik ég mér
lausgyrtur að vanda.
Djöflast svo í dans með þér
daðra og sýp á landa.
Steinunn Arnljótsdóttir í Varmahlíð var með dulnefnið Hrasi.
Léttur í spori leik ég mér
lausgyrtur að vanda.
Í Sæluviku leika sér
syndarar í anda.
Hér er á ferðinni skagfirski kúabóndinn í Hrunamannahreppnum Ingibjörn Öxndal Reynisson og kallaði sig Hans.
Svo kemur einn sem lýsir því sem enginn karlmaður vill lenda í:
Léttur í spori leik ég mér
lausgyrtur að vanda.
Þó er meinið að mér er
alveg hætt að standa.
Jón Gissurarson Víðimýrarseli sendi þennan botn og lætur það fylgja að það sé svo annað mál hvort svo sé fyrir honum komið. En hann sendi botninn inn undir dulnefninu Máríuerla, (er hún kannski af tittlingaætt?).
Þá erum við loksins komin inn í sumarið en þegar fyrriparturinn var saminn lá vorið í loftinu. Jón heldur áfram:
Vorið nálgast, vinda lægir
vermir sólin dal og grund.
Vetrarsvala burt það bægir
blómum skrýðir sérhvern lund.
Gosi segir:
Vorið nálgast, vinda lægir
vermir sólin dal og grund.
Glitrasýning, glampar ægir
gleður alltaf hal og sprund.
Alfreð Guðmundsson á Sauðárkróki var hér á ferð sem Gosi. Gustur kemur hér næstur eða Ingólfur Ómar.
Vorið nálgast, vinda lægir
vermir sólin dal og grund.
Blánar himinn blikar ægir
baðast ljósi árdagsstund.
Bullustampur, eða Magnús Guðmundsson hefur það á þessa leið:
Vorið nálgast, vinda lægir
vermir sólin dal og grund.
Vært hjá Drangey vagga ægir
vefur gliti ál og sund.
Dagfari, eða Pétur Stefánsson, var á sömu slóðum og stóð uppi sem sigurvegari keppninnar með besta botninn þó fleiri komu sterklega til greina.
Vorið nálgast, vinda lægir
vermir sólin dal og grund.
Lóusöngur burtu bægir
böli vetrar hverja stund.
Bestu vísuna var ekki síður erfitt að velja en hér eru nokkrar sem sendar voru inn og heldur Dagfari áfram.
Ekki þarf ég lengi að leita
að ljúfum stað í veröldinni,
því Skagafjörður fegurst sveita
á fastan stað í sálu minni.
Ingólfur Ómar segir:
Glóey hjúpar grund og sjá
gyllir haga jarðar.
Rís úr djúpi Drangey há
djásnið Skagafjarðar.
Og Óttar Skjóldal fv. bóndi í Enni á Höfðaströnd, sendi inn fallega vísu.
Ekki minnkar öll þín saga
og alltaf svona fagurgjörður.
Þú ert yndi alla daga
unaðslegi Skagafjörður.
Hilmir Jóhannesson sendi inn undir dulnefninu Lélegur en hér stendur hann alls ekki undir nafni:
Mælifells á háum hnjúk
himininn má dreyma.
Héraðsvötn í hafið mjúk
við Hegranesið streyma.
Spurning hvort Bullustampur standi undir nafni er hann segir:
Í Skagafirði gæftir eru góðar
og gleðin allsráðandi flesta daga.
Þar meyjar eru meiriháttar fróðar,
en mennirnir …ja það er önnur saga.
En þá er komið að þeirri vísu sem hlaut náð hjá dómnefnd að þessu sinni en hún er eftir Skarphéðinn Ásbjörnsson. Þótt Skagafjörður sé ekki nefndur beint í vísunni fékk hún keppnisleyfi. Hér er á ferðinni hringhend sléttubandavísa sem þýðir að einnig er hægt að fara með hana afturábak.
Veður sæinn röðull rótt
rjóður daginn langan.
Kveður snæinn foldin fljótt
fyllir bæinn angan.
Eða:
Angan bæinn fyllir fljótt
foldin snæinn kveður.
Langan daginn rjóður rótt
röðull sæinn veður.
/Áður birst í 17. tbl. Feykis 2019.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.