Vel heppnaðir Maríudagar

Frá Maríudögum. Myndir: Andrés Þórarinsson.
Frá Maríudögum. Myndir: Andrés Þórarinsson.

Maríudagar voru haldnir að Hvoli í Vesturhópi 29. og  30 júní  en Maríudagar eru  til minningar um Maríu Hjaltadóttur, fyrrum húsmóður á Hvoli. Að þessu sinni heimsóttu okkur liðlega 200 manns og kunnum við þeim bestu þakkir fyrir.

Að venju var hestamannamessa að Breiðarbólstað á sunnudeginum og  reið sóknarpresturinn, sr. Magnús Magnússon, til kirkju ásamt nokkrum kirkjugestum eða alls átta manns. Segja má að kirkjusókn hafi verið góð, setið í flestum bekkjum þó ekki hafi verið full kirkja.

Gestir þáðu veitingar í boði sóknarnefndar og heimilisfólks á Hvoli og nutu listsýningar, en að þessu sinni voru sýnendur Vala Jóhannsdóttir frá Borgarnesi með olíumálverk,  Marinó Björnsson, Laugarbakka, með vatnslitamyndir og verk unnin með blandaðri tækni þar sem hann notar íslensku fjármörkin unnin með sérstökum aðferðum, oðrun og marmaramálun sem byggist á gömlum aðferðum sem notuð voru til að skreyta hýbýli manna hér áður fyrr og Sigurbjartur Frímannsson frá Sólbakka með ýmsa muni rennda úr tré.

Segja má að aðstandendur  Maríudaga séu ánægðir með þátttökuna þetta árið en alltaf spilar veðrið sína rullu og að þessu sinni var fremur kalt og talsverður vindur sem dregur úr aðsókn.

Þetta var talið vera í tíunda sinn sem efnt var til Maríudaga en við töldum betur og kom í ljós að þetta var í ellefta sinn og e.t.v. það síðasta.

Aðstandendur Maríudaga þakka öllum þeim sem lagt hafa lið með einum eða öðrum hætti í þessi ellefu ár og ljóst er að við kveðjum þetta verkefni með nokkrum trega, en allt hefur sinn tíma.

Gréta Jósefsdóttir,
Litla-Ósi

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir