Velferðarsjóði Húnaþings vestra færð vegleg gjöf
Ólöf Ólafsdóttir á Tannstaðabakka sem undanfarin ár hefur saumað bútasaumsteppi og selt til styrktar Velferðarsjóðs Húnaþings vestra kom á fund stjórnar sjóðsins sl. mánudag og færði sjóðnum að gjöf afrakstur ársins, 600.000 krónur.
Ólöf greindist með Parkinsonsjúkdóminn fyrir nokkrum árum og tók sér þá fyrir hendur að sauma bútasaumsteppi sem hún hefur selt og gefið andvirði þeirra til góðgerðamála í Húnaþingi vestra. Hafa þau verið mjög vinsæl innan sem utan héraðs. Hefur hún styrkt sjóðinn mjög myndarlega eða um tvær milljónir á fjórum árum.
Ólöf var valin maður ársins 2018 á Norðurlandi vestra af lesendum Feykis.
