Vestur-Húnvetningar með afurðahæstu sauðfjárbúin
Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins, RML, hefur birt niðurstöður úr afurðaskýrsluhaldi sauðfjárræktarinnar fyrir framleiðsluárið 2019. Fjallað er um niðurstöðurnar á vef Bændablaðsins þar sem segir að útkoman sé góð í heildina og niðurstöður keimlíkar því sem árið 2018 skilaði. Fleiri bú ná þó mjög góðum árangri og búum á topplistunum fjölgar.
Uppgjör framleiðsluársins byggir á 329.619 ám sem eru tveggja vetra og eldri frá 1.680 skýrsluhöldurum. Flestar ær á skýrslum eru í Skagafirði, 30.012 talsins, en næst kemur Austur-Húnavatnssýsla með 29.702 ær. Vestur-Húnvetningar ná mestum afurðum eftir sínar ær og skilaði meðalbúið 30,6 kílóum eftir hverja á.
Afurðahæsta búið á listanum er Gýgjarhólskot í Biskupstungum sem skilaði 44,2 kílóum á hverja kind. Næst koma Efri-Fitjar í Fitjárdal í Húnaþingi vestra með 41,9 kg eftir ána. Bergsstaðir í Miðfirði eru í fjórða sætinu með 40,3 kíló og nágrannar þeirra á Urriðaá eru í fimmta sæti með 38,7 kíló.
Sé litið til frjósemi er Vestur-Húnavatnssýsla í öðru sæti yfir sýslur landsins. Efri-Fitjar eru í efsta sæti yfir lömb til nytja á hverja á með 2,08 lömb til nytja og af veturgömlum voru ærnar á Bergsstöðum í Miðfirði frjósamastar með1,67 lamb eftir ána.
Sjá nánar á vef Bændablaðsins.